Starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:17:44 (3786)

2000-02-01 16:17:44# 125. lþ. 53.95 fundur 264#B starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Eftir mjög ítarlega umræðu um gagnagrunninn á hv. Alþingi, bæði í þingsölum og ekki síður í nefnd, afgreiddi hv. Alþingi lög með mjög afgerandi hætti. Á grundvelli þeirra laga hefur hæstv. heilbrrh. gefið út starfsleyfi. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er gætt þar ýtrustu öryggis- og eftirlitskrafna.

Umræðan kemur nú aftur til kasta Alþingis og ég tel hana í rauninni allsendis óþarfa. Ég tel í rauninni að í þessu stóra og mikilvæga máli, sem skapar vissulega mikil sóknarfæri fyrir íslenska þjóð, eigi menn að einhenda sér að því að slípa til þá óhjákvæmilegu byrjunarörðugleika sem hljóta ávallt að koma þegar ný spor eru stigin. Spurningin er hvort við eigum við að einblína á einstaklinga, einstaka lækna sem kunna að leggjast gegn gagnagrunninum ellegar hvort við eigum að skoða málið í stærri heild. Eigum við að slípa þetta til þannig að gagnagrunnurinn nái þeim markmiðum sem sett eru með honum, þeim markmiðum að flýta framförum í læknavísindum fyrir allt mannkyn, styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi og örva ungt íslenskt menntafólk til að koma til starfa? Þannig má áfram telja. Eru það þeir þættir sem við eigum að horfa á eða eigum við að horfa á afstöðu einstakra lækna?

Fjárfestar hafa trú á því síðarnefnda, sömuleiðis almenningur. Flestir læknar virðast hafa sömu trú og ekki síst sjúklingar sjálfir. Þetta hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum.

Herra forseti. Nýlega birtist viðtal við Þórarin Tyrfingsson yfirlækni SÁÁ þar sem hann segist m.a. verða orðinn leiður á pexinu um grunninn og vill einblína á þá möguleika sem felast í gagnagrunninum. Undir þau sjónarmið tek ég.