Starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:20:02 (3787)

2000-02-01 16:20:02# 125. lþ. 53.95 fundur 264#B starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þegar verið var að keyra gagnagrunnsmálið í gegn á Alþingi sögðum við jafnaðarmenn ítrekað í umfjöllun um málið að illa væri staðið að lagasetningunni af hálfu stjórnarliða að allt færi í uppnám þegar rekstrarleyfið yrði veitt og það kom á daginn. Heilbrigðisþjónustan er víða í uppnámi, átök eru milli lækna og yfirmanna sjúkrastofnana, málaferli eru yfirvofandi. Þetta var allt saman fyrir séð, enda var málið ekki unnið í sátt við þá aðila sem það varðaði, við stóran hóp lækna, sjúklingahópa, skjólstæðinga sjúklinga og ýmsa vísindamenn. Því var rutt í gegn eins og menn muna.

En ég vil gera að umræðuefni gjaldið sem fyrirtækinu, sem fær einkaréttinn á þessari auðlind, er ætlað að greiða til okkar sem eigum hana. Ráðherra krefur fyrirtækið aðeins um 70 millj. sem gæti þó tvöfaldast í mesta lagi fyrir aðganginn að öllum heilsufarsupplýsingum landsmanna. Hér er enn einu sinni verið að hlunnfara þjóðina. Sameiginlega auðlindin, heilsufarsupplýsingarnar, eru færðar fyrirtækinu á útsöluprís. Þetta er ekki einu sinni brot af því sem það hefur kostað okkur að safna, vinna og varðveita þær upplýsingar. Fyrirtækið, sem margfaldaðist að verðmæti við að fá þennan samning, 120 milljarða fyrirtæki, út á þetta rekstrarleyfi sem reyndar enginn veit afkomuna hjá, á að borga 70 millj. á ári, í mesta lagi 140 millj. Þetta eru smáaurar fyrir aðganginn að þessum upplýsingum sem eru í eigu allrar þjóðarinnar.