Starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:30:48 (3792)

2000-02-01 16:30:48# 125. lþ. 53.95 fundur 264#B starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. stjórnarandstæðingar kjósa alltaf að tala eins og um trúnaðarupplýsingar sé að ræða og persónugreinanlegar upplýsingar, þeir festa sig algerlega í því. Ég fór yfir það áðan hvernig eftirliti með fyrirtækinu verður háttað og ég hef ekki tíma til að fara yfir það aftur. En það er alveg traust og þar eru traustir múrar. (Gripið fram í.) Það eru traustir múrar, hv. þm., og ég vitnaði bæði í landlækni og prófessor í lögum varðandi það.

Vegna þess að ég hafði ekki tækifæri til þess áðan langar mig að segja að hér er um það að ræða að við náum nýjum tökum á læknavísindunum. Í Morgunblaðinu 29. janúar er haft eftir sjúklingi, með leyfi forseta:

,,Hver veit --- kannski losnar lítið barn við að fá sykursýki á næstu öld vegna þátttöku minnar í grunninum? Ég vil ekki bera ábyrgð á því að skorast undan.`` Ég nefni þetta mönnum til umhugsunar.

Hér hafa hv. þingmenn einnig talað um að gjaldið væri ekki nægilega hátt og fara þeir þá algerlega í kringum sjálfa sig í því. Þeir eru á móti málinu en vilja samt fá hærri upphæðir. Við erum að tala um að þarna gæti verið um 140 millj. kr. að ræða árlega fyrir utan allan kostnaðinn við að byggja upp grunninn, allan kostnaðinn í kringum þetta. Mér finnst því undarlegt þegar menn tala um að þeir séu algerlega á móti málinu en vilja samt fá meiri fjármuni út úr því. (ÖJ: Á ekki að svara spurningunni?)