Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:04:53 (3795)

2000-02-01 17:04:53# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er varla hægt að tala um ræðu hv. þm. því að þetta var andsvar við mína ræðu í dálítið undarlegu formi og erfitt að svara andsvari sem kemur fram í 20 mínútna ræðu þar sem eru kannski 10--15 punktar sem ég þarf að svara á tveim mínútum.

Ég ætla að byrja á því að segja að ég sagði aldrei að þetta væri ónýtt frv. Ég sagðist meira að segja vona að það næði markmiði sínu en ég tryði því ekki. (Gripið fram í.) Nei, ég vona það, ég vona það virkilega en ég hef bara ekki þá sömu trú. Og hann misskildi líka grundvallarspurninguna sem ég kom fram með sem var. Hvers vegna ræður stjórnandi fyrirtækis óhæfari karlmann í staðinn fyrir hæfari konu? Af hverju þarf að setja lög og reglur og refsa honum fyrir það að gera ekki svo sjálfsagðan hlut? Þessari spurningu var ekki svarað. Ég spurði aldrei hvernig hnika á fram jafnréttinu. Ég spurði þessarar spurningar og einskis annars.

Ég setti líka spurningarmerki við það að setja upp jafnréttisáætlanir og allt það sem menn eru að gera í þessu frv. vegna þess að verið er að setja upp alls konar reglur til að þvinga fram eðlilega hegðun, þ.e. ráða hæfasta einstaklinginn. Það var það sem ég sagði. Og hv. þm. fór í gegnum mína punkta og byrjaði yfirleitt á að segja að þetta væri vitleysa og della hjá mér og síðan að nokkuð væri til í þessu, og sagði meira að segja að ræða mín hefði verið snakk, sem ég var ekkert voðalega ánægður með. Ég nota ekki slík orð um hv. þingmenn.

Hann ræddi m.a. um 14. gr. þar sem ég sagði frá reynslu minni hve erfitt væri að meta jafnverðmæt og sambærileg störf. Nú á að setja það í lög að finna eigi jafnverðmæt og sambærileg störf. Þetta er gersamlega útilokað að mínu mati. Það er ekkert prívatreynsla mín sem kemur þar inn í.

Ég get því miður ekki, herra forseti, komið fleiri punktum að í þessari atrennu en reyni í öðru andsvari.