Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:09:01 (3797)

2000-02-01 17:09:01# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Aftur fékk ég pillu um það að ég hugsaði áður en ég talaði og þykir mér það miður. En svo ég haldi áfram að fara í gegnum punktana sem komu fram í ræðu hv. þm. þá nefndi ég sérstaklega fæðingarorlofið, alveg sérstaklega, að nauðsynlegt er að virkja karlmenn í fæðingarorlofinu til að laga þetta eina atriði sem að mínu mati skilur á milli karla og kvenna í dag í lagasetningu.

Ég talaði líka um 24. gr., að óheimilt sé að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Hv. þm. fór í gegnum dæmið sem ég nefndi og síðan sagði hann að stjórnarskráin, jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar verndaði drenginn, þennan hæfileikaríka dreng sem tapaði stöðunni fyrir hæfileikalausum dreng, þ.e. jafnréttisákvæðið verndaði drenginn. Það gerir það líka fyrir stúlkuna og til hvers eru þessi lög þá? Til hvers hafa menn þetta ákvæði fyrst það verndar bæði? Þetta ákvæði er tómt og óþarft. Það má færa rök fyrir því að jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar geri það að verkum að engin jafnréttislög þurfi.

Ég fékk enn ekki svar við spurningunni sem var eftirfarandi: Hvers vegna ræður stjórnandi fyrirtækis óhæfari einstakling, karlmann, í staðinn fyrir að ráða hæfasta einstaklinginn? Ég taldi mig einmitt koma inn á það að þessi lög munu ekki breyta þessu. Það er arðsemiskrafan á markaðnum, þ.e. að búið verði að setja upp verðbréfamarkað og gerð sé krafa um arðsemi fyrirtækja, sem mun laga þessa stöðu, vona ég. Og meira að segja trúi ég því. Ég segi ekki að þetta frv. hér sé slæmt. Það hefur eflaust einhver áhrif en það hefur ekki þau áhrif að laga þessa stöðu. Það er miklu fremur arðsemiskrafan sem mun gera það.