Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:10:51 (3798)

2000-02-01 17:10:51# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði bæði í ræðu sinni áðan og fyrr í dag í andsvari við hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur að hann teldi að ekki væri hægt að jafna stöðu kynjanna með lögum. Ég skildi mál hans þannig og reyndar hefur hann ekki mótmælt því vegna þess að ég hef lýst þeim skilningi í ræðu minni. Eigi að síður segir hann, sem ég tók ekki eftir og ég rengi hann ekkert með það, að hann sé þeirrar skoðunar að jafna þurfi þennan rétt varðandi fæðingarorlofið. Mér finnst þá að hann sé í rauninni að segja að hægt sé að jafna stöðu kynjanna með því að breyta lögum en það er allt annað en hann sagði fyrr í umræðunni í dag.

Það sem skiptir þó e.t.v. máli er að ég held að við séum sammála um að markaðurinn mun skipta miklu máli og við erum þegar farin að sjá það. Ég held að í þeim fyrirtækjum sem eru farin að virka á markaði þar sem arðsemiskrafan er drifhvatinn, þá sjáum við nefnilega ákveðnar breytingar. Og það sem skiptir máli er að ungum konum finnst að þær finni þetta á eigin skinni, svo ég trúi því.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að viðhorfsbreytingar séu að verða í hugsun manna um þetta, ekki síst karla og ég rek þær að talsverðu leyti til karlanefndar Jafnréttisráðs sem ég held að hafi unnið ákaflega gott verk og hafi komið mörgum karlmönnum til þess að hugsa um þetta upp á nýtt og ég held reyndar konum líka og ég held að ýmsar tillögur sem þar hafa gengið fram --- og menn höfðu þessa karlanefnd að háði og spotti fyrir nokkrum árum --- horfi mjög til betri áttar í þessum efnum.