Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:22:11 (3800)

2000-02-01 17:22:11# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta frv. er hér til umræðu. Núgildandi lög eru frá árinu 1991 en þetta er sá málaflokkur sem stöðugt þarf að vera í endurskoðun og taka breytingum eftir tíðarandanum. Sem betur fer hefur margt breyst á þessum tíma þó ekki sé það eins mikið og a.m.k. flestar konur hefðu viljað sjá. Nú erum við komin inn í nýja öld. Ég ætla að vona að við berum öll gæfu til að standa að frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig að sómi sé að. Þetta er ekki aðeins mál kvenna heldur er þetta mannréttindamál. Þetta er þverpólitískt mál sem okkur öllum ber að vinna vel að og leggja okkur fram við að fari vandlega unnið frá okkur.

Ég tek undir það sem hér kom fram að margt hefur verið fært til betri vegar í frv. eins og það er nú lagt fram. Í frv. eru nýmæli sem eru til bóta en jafnframt er frv. svolítið bundið við það fasta form sem verið hefur utan um þessa löggjöf. Ég hvet félmn. til að taka tillit til þeirra athugasemda sem koma fram og vera opið fyrir breytingum varðandi einstaka liði og frv. allt.

Mér finnst ánægjulegt að þetta frv. skuli hafa komið fram á 70 ára afmælisdegi Kvenfélagasambands Íslands en afmælishátíð þess stendur einmitt yfir. Ég óska því til hamingju með þennan merkisdag. Hvort sem það er tilviljun eða ekki er skemmtilegt að þetta frv. skuli lagt fram núna.

Mig langar að fara nokkrum orðum um frv. án þess að fara ítarlega í hverja grein. Til þess að ná árangri í þessum málum þarf stofnun sem hefur visst sjálfstæði eins og gert er ráð fyrir í frv., með stofnun Skrifstofu jafnréttismála sem heyri beint undir ráðherra. Einnig er nauðsynlegt að geta fylgt málum eftir og krafist upplýsinga, fylgt eftir t.d. því að sveitarfélög sinni jafnréttismálum. Þessi stofnun verður því að hafa eitthvert vald.

Varðandi 4. gr. tek ég undir það sem hér hefur komið fram. Það eru mjög viðkvæm mál oft og tíðum sem koma inn á borð til kærunefndar jafnréttismála og erfitt fyrir mjög marga að koma fram og kæra. Margir óttast að kæran verði til þess að þeir missi atvinnu sína eða standi verr að vígi á eftir. Því tek ég undir ábendingar um að málskotsréttur verði hjá kærunefnd jafnréttismála og að kærunefndin hafi einnig möguleika á að leita sátta í viðkvæmum málum, að ekki þurfi nauðsynlega dómsúrskurð til að útkljá málin. Þetta gæti gert mörg mál einfaldari og hlíft mörgum einstaklingum.

Varðandi ábendingu 7. gr. um Jafnréttisráð, að Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tilnefni sameiginlega einn fulltrúa, þá tel ég að það geti varla staðist. Þetta eru sjálfstæð félög og þó að þau byrji bæði á ,,Kven-`` held ég að varla sé hægt að ætlast til að þau tilnefni fulltrúa saman. Ég legg til að sú tillaga verði skoðuð frekar.

Ég hef trú á því að lög sem þessi skili okkur áleiðis. Það er ekki bara hinn frjálsi markaður sem jafnar stöðu kynjanna heldur skiptir miklu máli að við höfum lög til að byggja á. Það að hvert þing setji sér áætlun í jafnréttismálum á hverju kjörtímabili þýðir að hvert þing er betur meðvitað um þennan málaflokk. Þannig gleymist verkefnið ekki heldur er það í stöðugri endurskoðun. Þetta er mjög mikilvægt, ekki bara á þinginu heldur líka í sveitarfélögunum. Jafnréttisnefndir sveitarfélaganna hafa verið misjafnlega virkar. Með einhverjum hætti þyrfti að gera störf þeirra sýnilegri og ábyrgari þannig að vinna þeirra komi fram í gegnum sveitarstjórnirnar og skili sér inn til Skrifstofu jafnréttismála. Það þyrfti að ýta við þeim og gera ljóst að þessi málaflokkur er ekki bara eitthvað sem sveitarfélög eru skyldug til að sinna, nefnd sem aðeins þurfi að manna, heldur ynni nefndin í jafnmikilvægum málaflokki og aðrar nefndir sveitarfélaganna. En það þarf að styrkja þessar nefndir. Það er alveg augljóst.

Í III. kafla, um réttindi og skyldur, er m.a. fjallað um launajafnrétti. Kaflinn um réttindi og skyldur er mjög mikilvægur. Ef við náum ekki launajafnrétti, jafnrétti á vinnumarkaðinum í heild varðandi öll réttindi og skyldur, þá miðar okkur lítið áfram. Ef við náum því fram að fyrirtæki og stofnanir þar sem fleiri en 25 starfsmenn starfa skuli setja sér jafnréttisáætlun og hún verði virk, þá er það nákvæmlega hið sama og með Alþingi. Það verður að vinna eftir áætluninni, ekki bara að setja sér það markmið að ráða jafnmargar konur og karla eða það sé passað upp á kynjahlutfallið. Málið snýst líka um markmið hverrar stofnunar, um að vinnutilhögunin verði þannig að karlar jafnt sem konur eigi möguleika á að sækja vinnuna með sveigjanlegri vinnutíma og með því að gera umræðuna um laun innan stofnana opnari en er í dag. Starfsmenn þurfa að vita hvar þeir standa og að atvinnustefnan sé virk, að jafnréttisstefna sé virk innan hverrar stofnunar. Þetta er mjög mikilvægt og ég hef trú á því að þetta muni skila okkur áleiðis. En veldur hver á heldur.

[17:30]

Maður hefði vonað að á árinu 2000 stæðu karlar og konur jafnari fótum varðandi sambærileg laun í sambærilegum störfum. En því miður er það ekki svo og því miður held ég að núverandi launakerfi með einstaklingsbundnum samningum, með aðlögunarsamningum, sé okkur kvenþjóðinni í óhag þar sem leynd hvílir yfir samningunum, þar sem við höfum ekki allt opið. Því miður er það þannig. Við þurfum líka að gæta þess þegar við erum að setja lög eins og þessi að ekki sé á öðrum stöðum í þjóðlífinu verið að brjóta niður það sem vel hefur tekist til eða gæti stuðlað að jafnari launum.

Varðandi 15. gr. um laus störf, starfsþjálfun og endurmenntun, er mjög nauðsynlegt að hvetja konur til að nýta sér þau réttindi sem þær hafa. 16. gr. er kannski mikilvægasta greinin, þ.e. um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Það hefur komið fram hjá flestum sem hafa tekið til máls hversu mikilvæg þessi grein er. Margt sem er að gerast í þjóðfélagi okkar gæti stangast á við að greinin standi. Það er búið að einsetja grunnskóla. Það gerir mörgum konum erfitt fyrir að vinna hálfan daginn og því miður er það þannig að það hefur frekar bitnað á konum en körlum. Ef hægt er að koma því að til að uppfylla 16. gr. að karlar tækju jafnan þátt í að taka á móti börnunum þegar skóla er lokið, þá stigjum við stórt skref. Hvað varðar fæðingarorlofið er trúlega það mikilvægasta að gefa feðrum og mæðrum möguleika á lengra fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðrum að þeir fái lengra fæðingarorlof en þeir fá í dag. Það þarf sveigjanleika inn í fæðingarorlofið til að ná þeim markmiðum sem við erum að setja okkur. Það þarf líka að koma sveigjanleika inn á vinnumarkaðinn varðandi vinnutíma.

21. gr., um greiningu á tölfræðiupplýsingum, er sá grundvöllur sem lögin eiga að byggja á. Skrifstofa jafnréttismála þarf að hafa góðar upplýsingar til að vinna úr svo hægt sé að koma með breytingar og leiðréttingar til að ná markmiðum frv.