Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:20:27 (3809)

2000-02-01 18:20:27# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þegar lesið er yfir greinargerð frv. þá er hún á hálfgerðu rósamáli og lengi vel hélt ég að hæstv. félmrh. ætlaði aldrei að koma sér að því að útskýra meginefni og tilgang frv., þ.e. þann að hafa nokkur áhrif á réttarstöðu þessara starfsmanna í klámiðnaðinum sem ráðherra nefndi þó undir lok ræðu sinnar og þá loksins skýrðist tilefni þessa véfréttarlega frv. (Félmrh.: Ég var bara að gera þingheim spenntan.) Og má segja að það hafi tekist. Það var þó alveg skýrt í lokin að tilgangurinn er sem sagt fyrst og fremst sá að breyta reglum sem lúta að atvinnuleyfi eða ekki atvinnuleyfi þessara ,,listamanna`` sem sloppið hafa inn í landið á þeirri undanþáguheimild sem er í lögunum um atvinnuréttindi útlendinga og ætluð var fyrir íhlaupavinnu eða tímabundnar stuttar heimsóknir listamanna til landsins, þ.e. þeirra sem koma utan hins sameiginlega vinnumarkaðar Evrópska efnahagssvæðisins.

Ég fagna þessu frv. eins og hv. síðasti ræðumaður. Örlítill litur er sýndur í þá átt að taka á þessu máli þegar það er orðið að miklum hausverk og vandamáli eins og svo oft vill verða hjá okkur Íslendingum. Gjarnan hefði verið ástæða til að fá líka skýrar upplýsingar um það hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir í þessum efnum að öðru leyti. Ég hygg að í umræðum um þessi mál fyrr á þinginu, fyrir jól, hafi verið boðað að á þeim yrði tekið á vettvangi ríkisstjórnarinnar þannig að tveir og jafnvel fleiri ráðherrar mundu þar leggja í púkk, hæstv. félmrh. með þessum breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, samgrh. sem ráðherra ferðamála með breytingum á lögum um flokkun skemmtistaða og jafnvel hugsanlega dómsmrh. einnig. Þó veit ég ekki hvort þetta kæmi hugsanlega við þann hluta þessara mála sem heyra undir dómsmrh., útlendingaeftirlit og annað því um líkt. Ef hæstv. ráðherra hefur frekari upplýsingar um hvernig verið er að taka á þessu hjá ríkisstjórninni í heild, þá væri æskilegt að fá það fram hér því að þetta er einungis lítill angi þessa máls og, eins og hæstv. ráðherra sjálfur kom inn á, breytir a.m.k. ekki þeim hluta þessara starfsmanna eða kvenna, sem ég held að sé nú í nánast öllum tilvikum, sem koma af Evrópska efnahagssvæðinu í krafti þess réttar að ferðast frjálst um Evrópska efnahagssvæðið og leita sér að atvinnu.

Ég held, herra forseti, að uppkoma og uppgangur þessara nektarbúllna, nýjasta afsprengis klámiðnaðarins sem hér hefur fest rætur á Íslandi á síðustu missirum, sé eiginlega algerlega dæmigert fyrir þann sofandahátt sem við Íslendingar sýnum oft í málum af þessu tagi. Ég minnist þess þegar hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók þetta mál upp hér, líklega í tengslum við það þegar fyrsti eða annar staðurinn af þessu tagi var að spretta upp í borginni, og hóf um það umræður á þinginu og spurðist t.d. fyrir um hvort þetta væri viðurkennt sem listgrein þannig að rétt væri að líta svo á að þarna væru á ferðinni listamenn sem ættu að eiga greiða leið inn í landið á grundvelli undanþágna sem slíkum væru ætlaðar. Ég hygg að hv. þm. hafi einnig spurt að því hvort slíkar konur hefðu atvinnuleyfi og það skyldi nú ekki vera að mönnum hafi beinlínis þótt þetta hlægilegt á þeim tíma að vera að gera sér rellu út af slíkum hlutum. Það var algert andvaraleysi ríkjandi, að sjálfsögðu eins og venjulega. Síðan vakna menn upp við vondan draum. Staðirnir eru orðnir 12 eða 13 sagði hæstv. ráðherra og í þeim byggðarlögum þar sem þeir hafa hreiðrað um sig er uggur í fólki yfir því sem þarna fer fram og þá kannski ekki síður því sem gjarnan fylgir með í kaupunum þegar starfsemi af þessu tagi festir rætur. Það eru hlutir sem ég held að ekkert samfélag óski sérstaklega eftir að fá.

Nú eru menn komnir með hausverk út af öllu saman og þá koma vandræðaleg viðbrögð af þessu tagi þegar á grundvelli áralangs andvaraleysis er búið að opna allar gáttir fyrir þessum hlutum sem að mínu mati hefði verið heppilegast að reyna að finna leiðir til að banna og koma í veg fyrir að yfir höfuð væru hér á ferðinni því að þetta er heldur ógeðfelld starfsemi og henni fylgir fátt gott það ég þekki til, t.d. miðað við þau vandamál sem slíkri starfsemi eru yfirleitt tengd erlendis og tengjast fíkniefnum, alvarlegum glæpum o.s.frv.

Það er ekkert leyndarmál, herra forseti, að þessi iðnaður er í grófum dráttum rekinn af mafíunni. Á meginlandi Evrópu er slíkur iðnaður að mestu leyti rekinn núna af rússnesku mafíunni eða rússnesku mafíunum sem hafa náð undirtökunum í þeim heimi á meginlandi Evrópu og eru jafnvel farnar að færa út kvíarnar á austurströnd Bandaríkjanna. Hvað fylgir með þegar svona þrælahald í gróðaskyni er rekið af slíkum aðilum? Því fylgir harðara ofbeldi og glæpir til að gæta þeirra miklu hagsmuna sem þarna eru á ferðinni. Í skjóli þessa þrífst vændi og í skjóli þessa þrífst eiturlyfjadreifing og til að passa upp á þá hagsmuni og þá fjármuni sem þarna fara um hendur eru oftar en ekki vopnaðir ofbeldismenn hafðir til að gæta hagsmuna þeirra sem að rekstrinum standa. Ég held að við Íslendingar ættum að gera okkur grein fyrir því að við stöndum frammi fyrir grafalvarlegum hlutum. Það eru öll einkenni þess, t.d. hvernig þær ógæfumanneskjur sem í þetta þrælahald hafa verið hnepptar, að við gætum staðið frammi fyrir sambærilegum hlutum og gerum það kannski nú þegar. Ég hvet því til þess að menn skoði það af mikilli alvöru að reyna að leita leiða þó seint sé til að koma þessum ófögnuði af höndum okkar á nýjan leik.

Að svo miklu leyti sem eitthvað af þessu tagi verður talið skylt að leyfa hér eða menn velja að leyfa hér, þá ætti auðvitað að gera það á grundvelli mjög strangra reglna, eingöngu á stöðum sem uppfylla mjög strangar kröfur um öryggi og hafa sérstök starfsleyfi, eru flokkaðir í sérstakan flokk sem næturskemmtistaðir eða annað því um líkt. Það er í rauninni algerlega fráleitt að starfsemi af þessu tagi skuli geta komist á fót í skjóli almennra skemmtanaleyfa eða vínveitingaleyfa og í skjóli þess einnig að búið er að gefa opnunartíma skemmtistaða frjálsan. Menn hafa því í rauninni nánast hent frá sér öllum möguleikum til að hafa eftirlit með þessu.

Borgaryfirvöld og bæjaryfirvöld virðast ekki hafa borið gæfu til að fara þá leið að krefjast þess að starfsemin væri staðsett á sérstökum stað eða með sérstökum hætti þannig að unnt væri að viðhafa sérstakt eftirlit o.s.frv. heldur er þessu eftir atvikum dreift tilviljanakennt um sveitarfélögin og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Dapurlegast af öllu, herra forseti, finnst mér þó vera það þrælahald sem þarna er stundað á ógæfusömum ungum konum sem gjarnan eru hnepptar í slíka starfsemi vegna fátæktar og neyðar heima fyrir. Það er auðvitað engin tilviljun að þær eru að stórum hluta frá þeim löndum í austanverðri Evrópu þar sem félagsleg upplausn, fátækt og neyð hefur herjað og herjar enn. Ég yrði stoltur af því, herra forseti, ef Íslendingar hefðu manndóm í sér til að banna þessa starfsemi með sambærilegum hætti og við bönnum t.d. box og er eitt af því fáa sem enn getur þó gert mann hreykinn að við höfum kjark til þess að verja það bann. Ég vildi gjarnan sjá að við værum menn til þess og þyrðum að hafa okkar áherslur í málum af þessu tagi jafnvel þó þær brytu eitthvað í bága við það sem gerist í öðrum löndum. En að fara algerlega á hina hliðina og hafa þetta kannski eftirlitslausara og aðhaldslausara en víðast hvar annars staðar, og er þá langt til jafnað, er náttúrlega alveg grátlegt, herra forseti. Ég vona því að þetta sé frekar upphafið og aðeins það fyrsta sem við sjáum af einhverjum alvörutilraunum til að koma böndum á þessa starfsemi og helst koma henni með öllu úr landinu.