Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:46:41 (3814)

2000-02-01 18:46:41# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað geta verið vandamál því samfara að draga landamæri hér. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Það er erfitt að svara þessari spurningu sem enginn einhlítur mælikvarði er til um: Hvar endar listin og hvar byrjar klámiðnaður eða klám? Einhvern tímann var bönnuð sýning á málverki í borginni. Það nefndist Vorleikur og þætti ekki hneykslunarefni í dag. Þetta er auðvitað líka háð tíðarandanum og viðhorfum manna á hverjum tíma sem breytast.

Ég get alveg tekið undir það að í sjálfu sér mætti heimfæra sjálfan dansinn sem fram fer á þessum stöðum undir list. Hann sem slíkur er ekki hið ógeðfellda sem þarna er á ferðinni heldur hitt sem tengist þessu. Þetta er fjárplógsstarfsemi. Þetta eru okurbúllur, það bera allar upplýsingar vitni um. Verðlag er þarna himinhátt og beinlínis svindlað á mönnum eftir því sem sagt er. Þó er það sennilega miklu alvarlegra sem yfirleitt fylgir með, afsprengi þessarar starfsemi sem þrífst í skjóli hennar hvar sem hún hefur skotið rótum. Í skjóli nektarstaða er tilhneiging til upp komi vandamál eins og vændi, fíkniefnaneysla og harðsvíraðir ofbeldisglæpir, vopnuð gæsla og annað í þeim dúr. Rekstraraðilarnir verða oftar en ekki skipulögð glæpasamtök sem gera út ógæfumanneskjur, hafa þær nánast í ánauð og flytja hreppaflutningum milli staða og milli landa. Við verðum að horfast í augu við þessa hluti. Við getum ekki reiknað með því að sleppa við hina neikvæðu fylgifiska þessarar starfsemi frekar en aðrar þjóðir.