Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:57:41 (3816)

2000-02-01 18:57:41# 125. lþ. 53.3 fundur 190. mál: #A nýbúamiðstöð á Vestfjörðum# þál. 19/125, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á vegum félmrn. er starfandi starfshópur um málefni nýbúa. Í hópnum eru fulltrúar frá samtökum atvinnulífsins, dóms- og kirkjumrn., utanrrn., heilbrrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands og menntmrn. Samkvæmt skipunarbréfi er hópnum m.a. falið að kanna grundvöll fyrir stofnun landsmiðstöðvar eða annars samstarfsvettvangs um málefni útlendinga. Um yrði að ræða þjónustu- eða fræðslumistöð sem falin yrði m.a. eftirtalin verkefni: Upplýsingaþjónusta og útgáfa fræðsluefnis, ýmsar leiðbeiningar og ráðgjöf, túlka- og þýðingarþjónusta, umsjón með grunnnámskeiðum og fræðslu, margþætt menningarstarfsemi og aðstaða fyrir ýmsa aðila sem starfa nú þegar að málefnum útlendinga.

Fyrsta verk þessa starfshóps er að afla gagna og upplýsinga. Í stað þess að kalla fyrir nefndina fjölda fólks er stefnt að því að halda stóran vinnufund innan skamms með fulltrúum frá fjöldamörgum samtökum og stofnunum sem koma að þessum málaflokki. Verður m.a. leitað álits á því hvernig best verði komið fyrir þjónustu við innflytjendur í því skyni að tryggja betur en nú er gert að komið sé til móts við þarfir þessa fólks. Það hefur verið óskað eftir þátttöku fulltrúa frá Rauða krossinum og ýmsum samtökum útlendinga, frá útlendingaeftirlitinu, frá Vestfirðingum, þ.e. áhugahópi um menningarfjölbreytni, frá flóttamannaráði, lögreglunni og fleirum. Til samvinnu verða kallaðir ýmsir rannsakendur sem hafa gert eða eru að vinna að rannsóknum á högum og aðstæðum innflytjenda hér á landi, bæði fullorðnum og börnum.

Stefnt er að því að safna fróðleik úr þeim skýrslum og könnunum sem gerðar hafa verið um útlendinga hér á landi og ná saman upplýsingum frá þeim sem best þekkja til. Verði í framhaldinu talið reynast nauðsynlegt að kanna nánar ákveðin svið getur komið til þess að efna til sérstakrar könnunar. Það er eðlilegt og að mörgu leyti jákvætt að mörg ráðuneyti koma að þessum málaflokki en á hinn bóginn getur það líka staðið þróunarvinnu fyrir þrifum að málefni útlendinga heyra undir a.m.k. fjögur ráðuneyti, dómsmrn., menntmrn., heilbrrn. auk félmrn. Sú staðreynd rennir stoðum undir það sjónarmið að nauðsyn sé á aukinni samræmingu í vinnubrögðum og þjónustu við innflytjendur. Þess er vænst að niðurstöður starfshópsins leiði til þess.

Ég held að okkur beri skylda til að sinna þessu máli. Erlent vinnuafl er gildur þáttur í þjóðarbúskapnum og við komumst ekki af án erlends vinnuafls fyrir utan það að útlendingar hafa á mörgum sviðum auðgað menningu okkar svo ómetanlegt má teljast. Ég spyr t.d. hvernig menn hugsa sér að tónlistarlíf Íslendinga væri ef til landsins hefðu ekki komið útlendingar, sest að og farið að starfa að tónlist.

Við höfum fengið verulega reynslu í félmrn. af móttöku flóttamanna. Við höfum reynt að vinna að aðlögun þeirra að íslensku þjóðfélagi. Við höfum gefið út handbók fyrir þá sem starfa með útlendingum. Við höfum styrkt orðabókaútgáfu. Við höfum gefið út bæklinga fyrir útlendinga á níu tungumálum, að mig minnir, um réttindi og skyldur fyrir þá sem koma til landsins. Við höfum einnig styrkt t.d. Alþýðusamband Vestfjarða til að þýða kjarasamningana.

Ég var á ferð á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir nokkrum dögum og varð þá enn ljósari þörfin á því að vinna markvisst að þessum málum. Ég mun hafa það í huga reyna að efna til miðstöðvar fyrir nýbúa. Ég tel alveg einboðið að hafa hana á Ísafirði vegna þess að hér í Reykjavík hefur borgin sinnt þessum málum myndarlega enda eru hér miklu fleiri úrræði fyrir aðkomufólk en eru fyrir vestan.

Að endingu get ég látið þess getið að ég hlakka til að þiggja boð á þjóðahátíðina í Bolungarvík.