Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:09:43 (3819)

2000-02-01 19:09:43# 125. lþ. 53.3 fundur 190. mál: #A nýbúamiðstöð á Vestfjörðum# þál. 19/125, Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil láta í ljósi ánægju yfir þeim góðu viðtökum sem málið hefur fengið í umræðunum. Það kemur mér þó ekki á óvart. Ég hef orðið var við að þetta mál hefur fengið ákaflega jákvæðar viðtökur. Þetta mál var flutt á síðasta þingi. Þá var málinu vísað til félmn. Það var kallað eftir umsögnum en tókst ekki að afgreiða það af eðlilegum ástæðum. Umsagnir um tillöguna voru almennt taldar mjög jákvæðar. Við flutningsmenn tókum tillit til þeirra ábendinga sem við töldum að gætu komið að gangi, m.a. frá bæjarstjórn Vesturbyggðar um að þessi stuðningur við nýbúa yrði ekki síst látinn fara fram í gegnum félagsþjónustukerfi í sveitarfélögunum. Það er náttúrlega eðlilegt þannig að við nýtum þá stjórnsýslulegu uppbyggingu sem til staðar er. Engu að síður er mjög mikilvægt að við höfum líka miðstöð sem menn gætu snúið sér til vegna þess að mörgu af þessu fólki er ekki ljós réttur sinn. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Vestf. sagði, að þar þarf örugglega að vinna skipulegar.

Það er líka rétt sem hv. þm. sagði og fleiri tóku undir. Við Íslendingar eigum að líta þannig á að hér sé um að ræða mjög góða viðbót við þjóðfélag okkar, þ.e. að til okkar komi fólk frá útlöndum. Það gerir þjóðfélag okkar fjölbreyttara, þróar það, kynnir okkur nýja menningarstrauma og styrkir á allan hátt þjóðfélag okkar.

Hæstv. félmrh. vakti athygli á að m.a. værum við mjög illa stödd í listalífi, ekki síst tónlistarlífi, ef við hefðum ekki fengið hingað til lands útlendinga sem auðgað hafa menningu okkar. Þeir hafa komið til liðs við okkur þar sem við höfum staðið höllum fæti. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna þá miklu breytingu sem hefur orðið í veitingahúsaflóru landsins vegna þess að hingað hafa komið útlendingar sem kynnt hafa okkur fyrir nýjum og framandi siðum í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég vil þó sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félmrh. að hann teldi að stofna ætti miðstöð nýbúa á Íslandi og einboðið að hún yrði á Vestfjörðum. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg yfirlýsing og eindreginn stuðningur við mál sem allir hv. þm. Vestfirðinga hafa flutt. Við erum einhuga um þetta mál. Ég held að þetta sé mjög í samræmi við þá hugsun sem við höfum lagt upp með, að þessi þjónusta sé skipulögð sem næst þeim sem hennar eiga að njóta. Þess vegna mæla öll rök með því að þetta sé gert eins og hæstv. félmrh. styður okkur í. Þessi yfirlýsing er stuðningur við þessa tillögu og mjög mikilvægt frumkvæði af hálfu hæstv. félmrh. sem ég þakka sérstaklega fyrir.