Lífskjarakönnun eftir landshlutum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:25:13 (3821)

2000-02-01 19:25:13# 125. lþ. 53.4 fundur 264. mál: #A lífskjarakönnun eftir landshlutum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þáltill. um að fram fari sérstök lífskjarakönnun flokkuð eftir landshlutum eða svæðum þannig að marktækur samanburður fáist er hluti af málafylgju okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við tókum þá ákvörðun strax á sl. hausti að taka byggðamál sérstaklega fyrir og láta þau hafa umtalsverðan forgang í störfum okkar.

Fyrr á þessu þingi var mælt fyrir tillögu okkar um sérstakar aðgerðir í byggðamálum. Þar var í 12 tölusettum liðum kveðið á um umtalsvert átak í þessum efnum í formi fjárveitinga og stefnumótunar þannig að raunveruleg tilraun og marktæk væri gerð til að snúa þessari óheillaþróun við.

Enginn vafi er á því að liður í því að skilja betur þennan vanda og greina og átta sig á því hvar skóinn kreppir eru gögn af því tagi sem þessi tillaga kveður á um að skuli unnin, þ.e. ítarleg könnun á lífskjörum landsmanna nægjanlega sundurliðuð eftir helstu þáttum og flokkuð eftir búsetu og landshlutum þannig að hægt sé að gera þar marktækan samanburð.

Ýmsir þættir þessa máls liggja fyrir í mismunandi greinargóðu formi. Þar má taka til að ákveðinn samanburður á launum liggur fyrir, flokkað gróft milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, t.d. í launakönnunum kjararannsóknarnefndar. Þó þarf að vinna þau gögn jafnvel betur, sundurliða og sundurgreina frekar en fyrir liggur. Á bak við meðaltöl leynast oft ýmis frávik sem ástæða er til að hyggja að. Þannig hefur sú klisja verið býsna lífseig í umræðunni að ekki gætu launakjörin haft stórt hlutverk því að meðallaun séu t.d. þau hæstu í landinu á Vestfjörðum. Kannast ekki hv. þm. við að hafa heyrt þetta?

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta meðaltal er híft upp af háum launum einnar stéttar sem vissulega er hlutfallslega allfjölmenn í þeim landshluta, það eru sjómenn. Þegar meðallaun annarra starfsgreina eru skoðuð þá eru þau yfirleitt langt undir meðaltali. Þannig er það víða. Ef tekjuhæsta hópnum, sem vissulega skiptir máli og hefur áhrif á t.d. útsvarstekjur sveitarfélaga og annað slíkt, er sleppt og laun annarra stétta skoðuð, t.d. verslunarfólks eða verkafólks eða skrifstofumanna, þá eru þau yfirleitt til muna lægri á landsbyggðinni og það á yfirleitt við hana sem heild. Ekki skiptir síður máli að útgjöld fjölskyldnanna séu skoðuð og sundurgreind þannig að marktækur samanburður fáist einnig að því leyti. Nauðsynlegt er að bera lífskjörin í allra víðtækustu merkingu þess orðs saman með þessum hætti enda ljóst, eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni, að þau skipta miklu máli þegar fjölskyldur ákveða hvar þær vilja búa. Lífskjörin í víðtækri merkingu þess orðs hafa afgerandi áhrif á ákvarðanir af því tagi.

Einnig er ástæða, herra forseti, til að leggja áherslu á að nauðsyn þess að ný gögn séu unnin í þessu sambandi sprettur ekki síst af þeim breytingum sem augljóslega hafa orðið á allra síðustu missirum. Vegna þeirrar miklu þenslu sem ríkt hefur á ákveðnum svæðum í landinu með tilheyrandi launaskriði og áhrifum á vinnumarkaði er ástæða til að ætla að þessi hlutföll hafi breyst og þenslan margumtalaða hafi að mestu leyti sneitt hjá garði á landsbyggðinni, hennar sjái fyrst og fremst stað í verðlagi og launakjörum þar með talið á höfuðborgarsvæðinu. Því er ástæða til að fá ný samanburðarhæf gögn í þessu sambandi.

Síðast en ekki síst má nefna, herra forseti, að síðasta neyslukönnun Hagstofunnar er frá árinu 1995. Hún er að verða fimm ára gömul og ærin ástæða til að fá þar nýjar upplýsingar í hendurnar þó ekki kæmi til það tilefni sem hér er til umræðu, þ.e. að vinna gögnin þannig að þau dugi til samanburðar á byggðarlögum. Slík gögn væru um leið nýr grundvöllur til könnunar á framfærslukostnaði fjölskyldna í landinu. Það munu nýtast í margvíslegu skyni. Það eru upplýsingar sem víða er byggt á eða reynt er að hafa hliðsjón af. Ég nefni sem dæmi framfærslukostnað námsmanna og annað í þeim dúr. Nýrra gagna frá Hagstofunni er þörf til ýmissa verkefna.

Herra forseti. Auðvitað væri tilefni til að hafa fleiri orð um stöðu byggðamála en knappur ræðutími við fyrri umræðu þáltill. gefur tilefni til. Satt að segja er ótrúlegt að sjá tómlætið og deyfðina sem ríkir í þessum málaflokki þegar staðan er skoðuð. Hér hverfa þingmenn stjórnarflokkanna yfirleitt úr þingsalnum, þeir sem ekki eru handjárnaðir við stólana eða bundnir af öðrum verkefnum, þegar byggðamál ber á góma. Ég hef tekið eftir því, herra forseti, og það hefur ekki brugðist, að þegar byggðamál hefur borið á góma á þessu þingi þá spýtast þeir fáu þingmenn Framsfl. sem kunna að hafa verið í salnum á dyr. Þetta er engin undantekning frá þeirri reglu að hér séu þau mál rædd fyrir tómum sölum, a.m.k. hvað framsóknarmenn varðar. Á þó að heita svo að málaflokkurinn sé í fóstri þar á bæ, samanber flutning Byggðastofnunar frá forsrn. til iðnrn. nú fyrir jólin.

Frammistaða íslenskra stjórnvalda í þessum efnum er dapurleg. Menn hafa horft á ástandið versna ár frá ári síðan árið 1993 án þess að segja megi að farið hafi verið í nokkrar marktækar eða efnislegar aðgerðir. Menn hafa fyrst og fremst látið sér nægja tvennt, þ.e. skýrslugerð og blaður. Það hefur verið framlag stjórnvalda, ríkisstjórna Davíðs Oddssonar til þessa málaflokks það sem af er. Ástandið hefur versnað ár frá ári síðan 1993.

Nú er ekki svo að ástæðulaust sé að ætla að hafa megi áhrif á þessa þróun með markvissum aðgerðum. Dæmin annars staðar frá sýna það. Norðmenn hafa náð umtalsverðum árangri í að sporna við byggðaröskun og jafnvel snúa henni við þar sem aðstæður voru þó að mörgu leyti mjög erfiðar í hinum dreifðu og fjarlægu byggðum Vestur- og Norður-Noregs. Enn skýrari eru þó dæmi um árangur frá Skotlandi þar sem menn hafa algerlega snúið þróuninni við hvað varðar byggðamunstrið á skosku eyjunum svo dæmi séu tekin. Það hefur m.a. verið gert með markvissum flutningi verkefna og starfa frá þéttbýlissvæðum til dreifðari byggða. Það er því ekki tilefni til uppgjafar, herra forseti, þegar finna má dæmi um að árangur næst þar sem viljinn er fyrir hendi.