Starfsemi Ratsjárstofnunar

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:36:54 (3833)

2000-02-02 13:36:54# 125. lþ. 55.1 fundur 211. mál: #A starfsemi Ratsjárstofnunar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ratsjárstofnun er sérstök stofnun á vegum utanrrn. sem annast rekstur ratsjárkerfis sem íslensk stjórnvöld starfrækja eða láta starfrækja í þágu varna landsins á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Ratsjárstofnun annast rekstur ratsjárstöðva á Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, Stokksnesi og á Miðnesheiði.

Nú er það þannig eins og menn vita að þessar stöðvar, sem starfræktar eru úti um landið, byggja tilveru sína í rauninni á því að nýta fullkomnasta fjarskiptabúnað sem til er hverju sinni. Þess vegna er það þannig að ljósleiðararnir sem liggja hringinn í kringum landið eru lagðir frá ratsjárstöðvunum og hingað á suðvesturhornið og eru auðvitað grundvöllur fyrir þeirri fjarvinnslu sem er núna sem óðast að ryðja sér til rúms á landinu.

Það er líka þannig að það er ásetningur núverandi hæstv. ríkisstjórnar að efla sem hægt er atvinnustarfsemi á landsbyggðinni, m.a. á grundvelli þessa fjarskiptakerfis og tölvutækni sem byggir á fjarskiptakerfinu. Þetta vekur athygli á sérstöðu málsins og möguleikunum sem eru óneitanlega til staðar í því að færa verkefni frá höfuðborgarsvæðinu og út á land. Það er augljóst mál að menn hljóta sérstaklega í þessu sambandi að beina sjónum sínum að starfsemi ratsjárstöðvanna úti um landið. Frá því að þær tóku til starfa fyrir allnokkrum árum hafa þær verið auk alls annars mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi í viðkomandi byggðarlögum og hvort sem mönnum líkar betur eða verr sú ákvörðun sem var á sínum tíma tekin með ratstjárstöðvunum eru þær auðvitað staðreynd og sú atvinnustarfsemi sem er í kringum þær er líka staðreynd.

Spurningin lýtur þess vegna ekki að því pólitíska ágreiningsefni sem er uppi um veru varnarliðsins heldur eingöngu um það skipulag sem er á þeirri atvinnustarfsemi sem ratsjárstöðvarnar eru þáttur í.

Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 248 að leggja eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. utanrrh. um starfsemi Ratsjárstofnunar:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fjölga störfum við ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi, meðal annars með því að færa þangað störf og verkefni sem nú eru unnin á vegum Ratsjárstofnunar á höfuðborgarsvæðinu?

2. Er eitthvað í vegi fyrir því tæknilega, með hliðsjón af nútímafjarskiptatækni, að vinna slík störf utan höfuðborgarsvæðisins?

Af ástæðum sem ég hef þegar rakið sýnist manni að um sé að ræða alveg rakið mál sem ætti að vera hægt að hrinda í framkvæmd mjög fljótlega. Við vitum að oft er verið að auglýsa eftir starfsmönnum til verka á vegum Ratsjárstofnunar og því mjög mörg tækifæri til að nýta sér þá möguleika til þess að færa til verkefni af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn vill að gert sé.