Starfsemi Ratsjárstofnunar

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:43:16 (3835)

2000-02-02 13:43:16# 125. lþ. 55.1 fundur 211. mál: #A starfsemi Ratsjárstofnunar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með fyrirspyrjanda að ef starfsemi af þessu tagi er uppi í landinu á annað borð þá er að breyttu breytanda æskilegt að henni sé dreift út um landið.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort ekki sé líklegt að þessi starfsemi verði óþörf innan skamms vegna tæknilegra breytinga og að vöktun með gervihnöttum eða öðrum slíkum hætti leysi landstöðvar af þessu tagi af hólmi þegar tæknin er orðin slík að t.d. bandarísk hermálayfirvöld geta sannanlega hlerað öll örbylgju- og gervihnattasímtöl í heiminum og ljósmyndað úr gervihnöttum hluti á jörðu niðri af þvílíkri nákvæmni að sögn kunnugra að lesa má fyrirsagnir í New York Times á jörðu niðri með því að stækka upp ljósmyndir úr njósnahnöttum hermálayfirvalda.

Þá er spurning mín fyrst og fremst sú: Er ekki allt eins skynsamlegt að búa sig undir það að í fyrirsjáanlegri framtíð og kannski nær okkur en við höldum í tímanum gæti komið til þess að starfsemi af þessu tagi yrði óþörf og hún yrði lögð niður?