Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:52:50 (3839)

2000-02-02 13:52:50# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði mig fjögurra spurninga. Við fyrstu spurningunni er það svar að fyrir rúmum tíu árum, þann 1. janúar 1990, tóku gildi lög nr. 122/1989 þar sem var m.a. kveðið á um að aðeins kæmi til greiðslu vegna tannréttinga að fyrir lægi sérstök umsókn þar sem fram kæmi flokkun tannskekkju. Aldrei náðust samningar um fyrirkomulag við réttingartannlækna um þátttöku almannatrygginga í þessu.

Með lögum nr. 1/1992 frá 24. janúar það ár voru öll almenn ákvæði varðandi tannréttingar felld úr almannatryggingalögum að undanskildu bráðaákvæði um áframhaldandi þátttöku hins opinbera í tannréttingakostnaði þeirra sem áttu þann rétt frá árinu 1991 til ársloka 1993.

Eftir 1. jan. 1994 voru því engin ákvæði um greiðslur vegna tannréttinga í almannatryggingalögunum önnur en þau að heimilt var að veita styrk vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa. Þessi ákvæði eru enn í lögunum.

Með reglum nr. 58 frá 26. jan. 1994 var kveðið á um að tiltekin alvarleg tilvik sem væru þess eðlis að almannatryggingar tækju þátt í kostnaði við meðferð þeirra. Endurgreiðslan nam 50--100% af kostnaði eftir eðli tannskekkjunnar, efnahag og aldri sjúklings. Þó voru almennar tannréttingar ekki niðurgreiddar.

Með reglum nr. 663 frá 20. des. 1996 tók ráðuneytið þá ákvörðun í fyrsta skipti í langan tíma að taka aftur upp endurgreiðslur fyrir almennar tannréttingar. Samkvæmt reglum tryggingaráðs frá 21. febr. 1997 var þátttaka almannatrygginga í kostnaði við tannréttingar vegna alvarlegra tilvika ákveðin 70 þús. kr. fyrir hvern sjúkling. Styrkurinn greiðist út í þrennu lagi á tveimur árum eða skemur eftir framgangi meðferðar. Þessi tilhögun skilaði því fljótt að meðferð stóð skemur en áður og kostaði þar af leiðandi minna.

Í reglum tryggingaráðs er bráðabirgðaákvæði um greiðslu styrks aftur í tímann til þeirra sem höfðu byrjað í meðferð fyrir gildistöku reglnanna en ekki hlotið neina endurgreiðslu samkvæmt fyrri reglum. Með endurbættum reglum tryggingaráðs frá 28. nóv. 1997 var styrkupphæðin hækkuð í 100 þús. kr. samtals fyrir hvern sjúkling og er það sú upphæð sem gildir í dag. Samkvæmt könnun sem tryggingayfirlæknir gerði í tengslum við setningu þessara reglna var meðalkostnaður hvers sjúklings árið 1996 frá tæpum 200 þús. kr. en gat farið upp í 400 þús. kr. hjá einstökum sérfræðingum. Í alvarlegustu tilvikum svo sem vegna klofins góms greiða almannatryggingar 75% af kostnaði tannréttinga. Stuðningurinn getur þó farið allt upp í 90% af kostnaði og miðast hann þá við efnahag aðstandenda.

Varðandi aðra spurningu hv. þm. er því til að svara að á undanförnum tíu árum hefur opinber stuðningur við tannréttingar hjá Tryggingastofnun ríkisins numið 110 millj. kr. að meðaltali en það svarar til 13,2% útgjalda við tannlækningar í heild. Árið 1998 voru veittar 120 millj. kr. í þennan lið sem svaraði til 15% af útgjöldum til tannlækninga í heild það ár. Útgjöld vegna tannlækninga hafa farið heldur hækkandi á síðustu árum en hlutdeild í tannréttingum er á svipuðu róli.

Varðandi þriðju spurningu: Almennt verður að teljast að tannlæknar séu vel meðvitaðir um tannskekkju og vísi börnum sem þurfa meðferð til réttingartannlækna. Hvort og þá í hve miklum mæli aðstandendur fara að slíkum ráðum hefur hið opinbera ekki vitneskju um enn sem komið er en engin opinber skráning er á tannheilsu barna, hvorki hvað varðar eðli eða tíðni tannskekkju né tannskemmda og annarra þátta.

Þetta eru mjög viðamiklar spurningar og ljósið er þegar farið að blikka á mig þannig að ég á eftir að svara fyllilega þriðju og fjórðu spurningu hv. þm. og mun gera það í seinni ræðu minni.