Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:00:22 (3842)

2000-02-02 14:00:22# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er slæmt þegar hæstv. ráðherra nær ekki að svara öllum spurningunum. En mig langar til að benda á að ég hef orðið vör við það að fólk er að borga mjög mismunandi háar upphæðir fyrir tannréttingar barna sinna eftir því hjá hvaða sérfræðingi þau eru. Það virðist vera mjög mismunandi fyrir nákvæmlega sömu aðgerðir. Ég held að það sé m.a. ástæðan fyrir því að það er verið að greiða þennan fasta styrk.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á hvort ekki sé full ástæða til að stjórnvöld komi á stofu á vegum hins opinbera þar sem er metin þörfin og hvað það muni kosta. Þessi aðferð er farin í nágrannalöndunum. Með þessari aðferð getum við ráðist gegn því ef það eru einhverjir svartir sauðir innan um sem eru að maka krókinn á þessum aðgerðum, sem á auðvitað ekki að líðast. Með svona flokkunar- og skoðunarstöð á vegum hins opinbera væri e.t.v. hægt að setja meiri peninga í styrki til einstaklinga sem eru með börnin sín hjá tannréttingarsérfræðingum.