Þjónusta við geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:07:17 (3846)

2000-02-02 14:07:17# 125. lþ. 55.3 fundur 215. mál: #A þjónusta við geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Málefni geðsjúkra barna og unglinga hafa verið í brennidepli af og til í samfélaginu. Þegar þessi mál hafa verið til umræðu hefur komið í ljós að þjónustu bæði við þau og foreldra þeirra hefur verið á margan hátt mjög ábótavant og vegna þessa hefur ástandið oft verið mjög alvarlegt hjá þeim fjölskyldum þar sem börn eru haldin geðrænum sjúkdómum.

Þess vegna hef ég lagt fram nokkrar fyrirspurnir sem varða þjónustu við þennan hóp barna og spyr á þskj. 255:

Eru það áform heilbrigðisyfirvalda að BUGL eða barna- og unglingageðdeild Landspítalans verði lokuð um helgar til frambúðar?

Nú hefur BUGL verið lokuð frá því 1995 um helgar og þá hafa börnin sem hafa legið þar inni verið send heim. Foreldrar hafa lýst mjög erfiðu ástandi þegar er verið að senda þessi börn heim um helgar. Þetta eru börn sem þurfa heilbrigðisþjónustu eins og aðrir meðan þau liggja inni á sjúkrahúsi og ekki forsvaranlegt að senda þau heim um helgar. Foreldrarnir eru einnig bundnir yfir börnunum meðan þau eru inni á geðdeildinni, þau þurfa að sækja þangað meðan þau eru þar og síðan eru þau send heim um helgar. Ég vil því fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þetta verði til frambúðar því að þetta er óviðunandi ástand gagnvart þessum hópi.

Á sama þskj. spyr ég einnig: Hvenær má vænta þess að aðstandendum geðsjúkra barna standi til boða hvíldarinnlagnir fyrir þau, sambærilegar við þau úrræði sem t.d. fötluðum börnum og foreldrum þeirra standa til boða?

Það er afleitt ástand hjá þessum hópi vegna þess að engin hvíldarinnlögn er fyrir geðsjúk börn og ekki er síður mikilvægt og mikil þörf fyrir það að þessi börn fái hvíldarinnlagnir og foreldrar þeirra til að geta t.d. sinnt öðrum börnum og til að hvíla þau því það er ekki minna álag að vera með alvarlega geðsjúkt barn á heimili en að vera með mikið fatlað barn, það er alveg augljóst.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að koma á hvíldarinnlögnum fyrir þennan hóp sem er mjög brýnt mál?