Þjónusta við geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:18:02 (3851)

2000-02-02 14:18:02# 125. lþ. 55.3 fundur 215. mál: #A þjónusta við geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Mér þykir leitt að heyra það frá hæstv. ráðherra að barna- og unglingageðdeildin eigi áfram að vera lokuð um helgar. Vissulega er það ekki af faglegum ástæðum að barnadeildinni er lokað um helgar. Það er líklega frekar af rekstrarástæðum, ég þekki það og hef skoðað þetta mál vel. Það eru ekki settir fjármunir í að reka deildina um helgar. Hún heldur því fram að börnin séu sett inn á unglingadeildina um helgar þegar þörf er á. Það algjörlega í undantekningartilvikum.

Varðandi hvíldarinnlagnirnar þá tek ég undir það sem komið hefur fram hér í umræðunni. Það verður að koma á hvíldarinnlögnum fyrir þetta fólk. Það er ekki hægt að setja börnin í venjulega pössun. Það er ekki hægt að senda þessi börn til ömmu og afa eða einhverra nákominna í pössun. Þau þurfa mann og jafnvel tvo með sér, börn með alvarlega geðsjúkdóma. Foreldrar þessara barna er í verulegum vandræðum og verulegum hremmingum. Þeir geta hvergi sent þau inn þegar þeir þurfa á hvíld að halda. Foreldrarnir eru vakandi jafnvel nótt og dag yfir þessum börnum. Þetta hefur áhrif á önnur börn í fjölskyldunum sem verða út undan. Foreldrarnir geta aldrei farið neitt með hinum börnunum í fjölskyldunni og sinnt þeim svo nokkuð sé. Þjónustuleysið sem þessi hópur býr við hefur brotið niður margar fjölskyldur, sérstaklega þegar kemur að hvíldarinnlögnunum. Það mál verður að leysa og ég treysti því að hæstv. ráðherra fari í það. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, þetta er hópur sem verður á milli í kerfinu. Þegar félagsmálayfirvöldum hentar eru þau flokkuð sem sjúklingar, þegar heilbrigðisyfirvöldum hentar eru þau flokkuð sem fötluð. Síðan fá þau enga þjónustu af því að þau verða þarna á milli.

Þessu verður að taka á og bæta það ástand sem ríkir í málefnum geðsjúkra barna.