Geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:42:34 (3862)

2000-02-02 14:42:34# 125. lþ. 55.5 fundur 217. mál: #A geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að harma þau orð er féllu hjá hæstv. heilbrrh. og ég túlka í raun sem aðskilnaðarstefnu af því að þetta er það í raun sem hún var að lýsa. Það að ekki hafi verið gert ráð fyrir geðsjúkum börnum á hinum nýja barnaspítala lýsir grundvallarmistökum í stefnumörkun í heilbrigðismálum á Íslandi. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, þetta snýst ekki bara um húsaskipan. Þetta snýst um fordómana í samfélaginu gagnvart geðsjúkdómum, þetta snýst um viðhorf okkar gagnvart geðsjúku fólki og þetta snýst um vilja stjórnvalda til að ganga fram fyrir skjöldu þannig að geðsjúkum sé gert jafnhátt undir höfði hér og öðrum sem eiga við sjúkdóma að stríða.