Geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:43:36 (3863)

2000-02-02 14:43:36# 125. lþ. 55.5 fundur 217. mál: #A geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég harma þau svör hæstv. ráðherra að niðurstaðan hafi orðið sú að þessi börn fengju ekki inni á nýjum barnaspítala vegna þess að það hefði tafið fyrir byggingu, eins og kom fram hér. Mér finnst átakanlegt að hlusta á hæstv. ráðherra tala svona. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Ástu Möller að nýr barnaspítali getur ekki staðið undir nafni nema hann rúmi öll börn.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekki er farið í það að reisa þennan spítala, barnaspítala, þannig að hann geti rúmað öll börn? Það væri hægt að reisa þennan spítala í tengslum við Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem er bráðamóttaka og slysadeild. Ég benti á það í svari mínu hér á undan að oft þarf slysadeild að vera til staðar þegar þessi börn koma t.d. í bráðainnlögn. Hvernig stendur á því að stjórnvöld horfa ekki til þess að þessi spítali rúmi alla?

Og að vísa til fagfólks --- allt fagfólk sem ég hef talað við telur að börn með geðræna sjúkdóma eigi að vera með öðrum veikum börnum. Ég bendi líka á að ýmis langveik börn með aðra sjúkdóma, t.d. krabbamein, eða hjartasjúkdóma, eru haldin ýmsum geðrænum kvillum eftir langvinn veikindi, t.d. þunglyndi. Það er oft ekki auðvelt að greina á milli þegar börn eru veik. Ég verð að segja að ég harma að þarna eigi að útiloka þennan hóp barna. Ég óttast að þetta ýti undir frekari fordóma sem því miður eru til staðar gagnvart geðsjúkdómum eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi hér áðan. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra sjái sig um hönd og sjái til þess að nýr barnaspítali verði fyrir öll sjúk börn.