Langtímameðferð fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:55:32 (3868)

2000-02-02 14:55:32# 125. lþ. 55.6 fundur 218. mál: #A langtímameðferð fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega útúrsnúningur að segja að þessi mál séu eingöngu í nefndum. Eins og hefur komið fram í máli mínu á undan höfum við aukið fé til þessa málaflokks og við höfum stóraukið fjármagn til þessa málaflokks. Við höfum fjölgað starfsfólki til að þjóna þessum einstaklingum. Áðan kom fram að a.m.k. 11 nýir starfsmenn hafa komið bara á sl. einu og hálfu ári. Við höfum auðvitað tekið mjög myndarlega á þessu þó að við þurfum að gera enn betur.

Lýsingar hv. þm. hér áðan eru allar sannar og ég þekki það best vegna þess að þetta fólk kemur oft til mín. Ég skil mjög vel aðstæður þessa fólks. Þess vegna höfum við sett þetta í forgang og við höfum reynt eftir fremsta megni að koma til móts við þetta fólk með ýmsu móti. En það er aldrei nóg þegar svo mikill vandi er eins og hér var lýst en með þeim aðgerðum sem við erum þegar búin að gera og erum að vinna að þá bætum við hag þessa fólks. Það kemur mér mjög á óvart vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur oft rætt um það í þingsal hve það sé einmitt mikilvægt að samþætta störf þessara aðila sem eru að vinna með börn eins og félmrn., menntmrn. og heilbrrn. sem við erum að gera, ef hv. þm. og fyrirspyrjandi telur það svo einskis virði þegar það er gert.