Íslenski hrafnastofninn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:11:43 (3873)

2000-02-02 15:11:43# 125. lþ. 55.9 fundur 169. mál: #A íslenski hrafnastofninn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Um aldir hefur krummi krunkað úti og kallað á nafna sinn. Þessi merki fugl hefur sett það sterk mörk á umhverfi Íslendinga að segja má að hann sé einn af einkennisfuglum þessa lands. Hann er sérlega hnýsinn um hagi mannanna og hefur fylgt okkur frá örófi alda, hann er partur af sögu okkar, ég minni á hrafna Óðins, Hugin og Munin. Ég minni líka á það að þegar Flóki Vilgerðarson kom hingað og fann Ísland þá gerði hann það fyrir atbeina hrafna þriggja sem fylgdu honum á leið.

Að óathuguðu máli kemur vafalaust flestum á óvart að hér skuli vera innt eftir heilbrigði íslenska hrafnastofnsins. Flestir gera því líklega skóna að hann sé í góðu ástandi. Ekki er langt síðan, herra forseti, að hrint var í framkvæmd lögum um veiðikort. Þau eru forsenda veiða og veiðimenn fá ekki veiðikortin endurnýjuð nema þeir leggi fram skýrslur um veiðar sínar. Þetta var tekið upp til þess að hægt væri að gera sér mynd af veiðiálagi og ástandi stofna og nota upplýsingar sem fram kæmu í þessum skýrslum til þess að meta heilbrigði stofnanna.

Þegar fyrstu upplýsingarnar tóku að berast úr þessum veiðiskýrslum veiðimanna urðu margir forviða yfir þeirri staðreynd hve margir hrafnar voru felldir af veiðimönnum árlega en fyrstu upplýsingar benda til þess að hvorki fleiri né færri en 6.000 hrafnar séu drepnir með þessum hætti. Upplýsingar sem lágu þá fyrir, byggðar á tiltölulega veikburða rannsóknum um ástand hrafnastofnsins, bentu því til þess að það væri verið að ofveiða stofninn. Það liggja líka fyrir upplýsingar sem benda til þess að um staðbundna ofveiði á hröfnum sé að ræða á Suðvesturlandi og við Breiðafjörð og síðan er það alveg óyggjandi að rannsóknir dr. Ólafs K. Nielsen í Þingeyjarsýslum benda til þess að frá 1991 hafi hröfnum fækkað þar allmikið.

Nú er það svo, herra forseti, að þetta bendir allt saman til þess að hrafnastofninn sé ekki í því góða ástandi sem menn töldu áður. Þess vegna hef ég varpað fram þessari fyrirspurn til hæstv. umhvrh. Ég vísa til þess líka, herra forseti, að það liggja fyrir ákaflega nákvæmar rannsóknir á nokkrum stöðum, t.d. voru öll hrafnasetur könnuð milli áranna 1981 og 1987 á Suðvesturlandi af Kristni Hauki Skarphéðinssyni. Þess vegna hægt að fara í rannsóknir og kanna muninn sem hefur orðið á stofninum á þessu svæði milli þessara ára og þar með að draga ályktanir af ástandi stofnsins í heild.

Ég spyr því hæstv. umhvrh.: Hyggst hún beita sér fyrir því að í slíkar rannsóknir verði farið? Í annan stað: Hvert er álit hennar á stöðu hrafnastofnsins? Í þriðja lagi, ef hún er mér sammála um að hann sé í nokkurri hættu og ekki nægilega sterkur, til hvaða ráða hyggst hún grípa? Sér í lagi spyr ég, herra forseti: Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér að setja íslenska hrafninn á válista?