Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:44:02 (3882)

2000-02-02 15:44:02# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Já, hvað skyldi vera um að vera? er spurt.

Ég er ekki forspár maður en ég hef vitni að þeim orðum mínum, þegar það spurðist að fyrrv. iðnrh. Finnur Ingólfsson hefði brugðið undir sig betri fætinum og skundað niður í Seðlabanka, að hann væri að flýja Eyjabakka, álver í Reyðarfirði og Norsk Hydro.

Orð fulltrúa Norsk Hydro urðu ekki misskilin, jafnvel þó maður eigi íslenskan maka. Þau urðu ekki misskilin, og báru með sér að Norsk Hydro hefði verið gefið meira en undir fótinn með 480 þús. tonna álver. Hafi Finnur Ingólfsson gefið ádrátt um slíkt álver áður þá hefur hann gefið loforð þegar hann lá á hnjánum fyrir framan þá í aðventunauðum sínum hér á hinu háa Alþingi við rekstur málsins eftir yfirlýsingar sem þaðan höfðu borist.

Það er engum vafa undirorpið hvað hér er á ferðinni. Þó að ég sé ekki forsagnarmaður þá ætla ég að endurtaka þann spádóm minn að það á mikið vatn eftir að renna óbeislað til sjávar í Fljótsdal austur. En það verður ekki kátt í hárri höll þegar framsóknareignirnar byrja að kenna hver annarri um ófarirnar enda Finnur úti á fjósbita.