Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:45:56 (3883)

2000-02-02 15:45:56# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Oft hafa utandagskrárumræður orðið að ástæðulitlu. En það er trúlega langt síðan þær hafa haft eins litla ástæðu og þessar umræður hafa. Hér hefur ekkert nýtt gerst í umræðu um álver við Reyðarfjörð, allt það sem sagt hefur verið hefur áður verið sagt, allt það sem sagt hefur verið um stærð álversins hefur áður verið sagt, allt sem sagt hefur verið um áfangaskiptingu álversins hefur áður verið sagt.

Ætíð hefur legið fyrir að Norsk Hydro hefur viljað fá svokallaðar tryggingar fyrir því að hugsanlegt væri að stækka álverið. Þó það nú væri. Hins vegar liggur fyrir að nú er unnið að samningum um að byggja 120 þús. tonna álver við Reyðarfjörð, það er mál dagsins. Hins vegar verður að sjálfsögðu inni í þeim samningum einhver trygging fyrir því ef allir endar verða hnýttir að það megi horfa til stækkunar þessa álvers. (SvH: Já, var það ekki?) Að sjálfsögðu. Hugsanlega er hægt að vitna til ýmissa orða fyrrv. iðnrh. þegar hann sjálfur stóð í þeim sporum að reyna að tryggja stóriðjuver við Reyðarfjörð, því það var ekki ætíð álver.

Þó er eitt gleðilegt í þessum umræðum og það er að nú skuli andstæðingar álversins beina umræðunum hingað inn á þetta svið en ekki horfa eingöngu út fyrir landsteinana og reyna að hafa áhrif á aðila sem þar eru.

Herra forseti. Það eina nýja í málinu er það sem fram kom í fréttum í gær að því miður hafa einhverjir Íslendingar gengið svo langt að hóta aðilum lífláti. Við skulum vona að ekki verði áframhald á umræðunum í þá átt.