Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:47:56 (3884)

2000-02-02 15:47:56# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það form á umræðum á Alþingi að kalla þingheim til utandagskrárumræðu út af engu er orðið mikið umhugsunarefni. Hvaða fréttir hafa verið að gerast sem kalla á það að þingheimur þurfi að koma til umræðu utan dagskrár? Ekki nokkur skapaður hlutur. Þetta er svoleiðis gjörsamlega farið að ganga sér til húðar hvernig menn nota þetta form að það er þingheimi ekki til framdráttar að hafa þennan hátt á.

Hvað er verið að ræða hér? Hvaða upplýsingar hafa ekki komið fram áður sem er verið að ræða núna? Allt sem menn eru að draga fram í umræðuna hefur verið sagt áður. Alltaf hefur legið fyrir að stefnt hefur verið á það að byggja 480 þús. tonna álver við Reyðarfjörð. Það liggur jafnframt fyrir að þetta álver á að verða áfangaskipt. Fyrsti áfangi er 120 þús. tonn. Ekki er hægt að gefa þær tryggingar að orkuöflun fyrir 480 tonna álver takist en við vitum hins vegar að við eigum mikið af fallvötnum og mikla orku norðan Vatnajökuls sem ég vona sannarlega að verði notuð til þess að byggja upp atvinnu á Austurlandi og að lokið verði við að byggja upp 480 þús. tonna álver að lokum.