Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:56:22 (3888)

2000-02-02 15:56:22# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu er lítið annað en að vekja athygli á þeirri afstöðu meginhluta stjórnarandstöðunnar að hún er andsnúin því að styrkja efnahagsstöðu Íslendinga og byggð á Íslandi með því að nýta vatnsaflið til stóriðjuframkvæmda.

Það er því gott tækifæri til þess að rifja upp ákveðna ályktun sem er í gildi og Alþingi samþykkti 3. mars á síðasta ári eða skömmu áður en þingmenn héldu til alþingiskosninga. Í þeirri ályktun sem samþykkt var mótatkvæðalaust á Alþingi segir, með leyfi forseta:

,,Nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar og þannig stuðlað að varanlegri fólksfjölgun og fjölbreyttara framboði atvinnutækifæra þar.``

Í framsöguræðu minni hluta allshn. um þessa ályktun um byggðastefnu á Íslandi árið 1999--2001 kemur hvergi fram, hvorki í áliti 1. minni hluta, hv. fyrrv. þingmanns Kristínar Halldórsdóttur, né á áliti frsm. 2. minni hluta, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, nein andstaða við þetta efnisatriði þáltill. Þvert á móti er tekið fram að helsti gallinn við þingmálið er að menn treysti því ekki að stjórnvöld hrindi í framkvæmd þeim góðu áformum sem er að finna í ályktunartillögunni. Þess vegna treystir stjórnarandstaðan sér ekki til að greiða atkvæði með þáltill. en muni að sjálfsögðu ekki, eins og tekið er fram í ræðum beggja þingmanna, greiða atkvæði gegn tillögunni vegna þess að efnisatriðin eru góð.