Banka- og póstafgreiðslur

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:12:44 (3897)

2000-02-02 18:12:44# 125. lþ. 55.12 fundur 302. mál: #A banka- og póstafgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég kem einungis upp til að þakka hv. þm. fyrir að bera fram þessa fsp. Mér finnst hún mjög eðlileg og vil aðeins ítreka það sem ég lét koma áðan fram í svari mínu að ráðuneytið er þeirrar skoðunar, og einnig Fjármálaeftirlitið, að það beri að athuga það algjörlega til hlítar hvort ekki sé rétt að gera þessa breytingu á lögunum sem opni það að viðskiptabankar geti farið með þessa þjónustu. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að hlutirnir eru að breytast mikið með breyttum samgöngum. Eitt af því sem gerir líf á landsbyggðinni jákvæðara og áhugaverðara er það að fólk þurfi ekki að sækja langt í þjónustu sem er eins sjálfsögð eins og póstþjónusta.

Hv. þm. spurði hvenær þessari vinnu lyki í nefndinni. Því miður get ég ekki svarað því nákvæmlega en ég geri mér vonir um að það verði það fljótt að hægt verði að gera breytingar á þessum vetri hvað þetta varðar en þori ekki algjörlega að fullyrða það þar sem ég hef því miður ekki sett mig nægilega vel inn í öll mál í ráðuneytinu.