Póstþjónusta

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:17:00 (3899)

2000-02-02 18:17:00# 125. lþ. 55.15 fundur 303. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þá fyrirspurn sem ég vil svara, en hún er svohljóðandi: Hvar er Íslandspóstur kominn í samstarf um þjónustu og afgreiðslu við aðra? Hvernig er því samstarfi háttað og um hvaða aðila er að ræða á hverjum stað?

Svar mitt er byggt á upplýsingum frá Íslandspósti og er svohljóðandi: Íslandspóstur er í samstarfi um afgreiðslu við eftirtalda aðila á eftirtöldum stöðum: Í Sandgerði við Landsbanka Íslands, í Bíldudal við Landsbanka Íslands, á Flateyri við Sparisjóð Önfirðinga, í Hrísey við Sparisjóð Svarfdæla, eins og kom nú raunar fram áðan. Á Grenivík við Sparisjóð Höfðhverfinga, á Laugum í Reykjadal við Sparisjóð Suður-Þingeyinga, í Reykjahlíð í Mývatnssveit við Sparisjóð Suður-Þingeyinga. Á þessum stöðum er samstarf aðila takmarkað við ákvæði bankalaga um heimild banka og sparisjóða til að stunda óskylda starfsemi.

Á Hólmavík er samstarf við Sparisjóð Strandamanna um rekstur húsnæðis. Á Stað í Hrútafirði rekur Staðarskáli hf. póstafgreiðslu sem verktaki. Í Grímsey er samnýting með Flugmálastjórn um húsnæði og starfslið. Auk þess hefur sölustöðum frímerkja fjölgað verulega og eru það stórmarkaðir, bensínstöðvar, bókabúðir og ýmsar aðrar verslanir, alls um 60 talsins.

Rétt er að geta þess að frumkvæði að þessu samstarfi, sem ég tel mjög merkilegt og af hinu góða, mun hafa komið frá sparisjóðunum. Ljóst er að Íslandspóstur hefur haft hag af samstarfinu og hefur tekist að draga verulega úr kostnaði hjá Íslandspósti vegna þessa samstarfs, það er ástæða til að geta þess. Upphaflegar hugmyndir um þetta samstarf voru á þá leið að sparisjóðir og bankar sinntu póstþjónustu sem verktakar með eigin starfsmönnum og með því mætti ná ýtrustu hagræðingu fyrir báða aðila og jafnframt renna styrkari stoðum undir þjónustu beggja aðila á viðkomandi stað. Póst- og fjarskiptastofnun gerði ekki athugasemd við samstarfið enda væri póstþjónustan á þessum stöðum eftir sem áður á ábyrgð Íslandspósts.

Eins og fyrr hefur komið fram var afstaða bankaeftirlits Seðlabankans sú að þessari leið var hafnað á grundvelli laga. Til þess að bregðast við þessu var farin sú leið að reka aðskildar afgreiðslur í sama húsnæði. Sú leið skilar hins vegar ekki þeirri hagkvæmni sem að var stefnt því hagræðingin liggur fyrst og fremst í að geta samnýtt starfsfólk fyrir báða aðila. Ljóst er að víða um land er hægt að koma á samvinnu Íslandspósts við banka og sparisjóði sem mundi tvímælalaust styrkja stöðu beggja aðila á þeim stöðum. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að ekki séu lagalegar hindranir á því að bankar og sparisjóðir geti sinnt póstþjónustu sem verktakar eins og að var stefnt.