Loftskeytastöðin á Siglufirði

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:34:36 (3905)

2000-02-02 18:34:36# 125. lþ. 55.14 fundur 248. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki eingöngu og aðeins um störf þessa tæknimenntaða fólks á Siglufirði sem vissulega er þó alvarlegt mál. Staðreyndin er sú að Landssíminn er ekki að fækka fólki. Hann er að fjölga því eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á og það ekkert smáræði. Á grundvelli tækni og tækniframfara ætti einmitt að vera hægt að deila afmörkuðum þáttum starfsins út um land. Að mínu mati er í sjálfu sér visst viljaleysi þarna á ferðinni. Sé vilji til þess að taka á þá getum við bent hæstv. samgrh. á að beita sér fyrir því að flytja t.d. Póst- og fjarskiptastofnun í áföngum til Siglufjarðar. Þetta er sjálfstætt starfandi stofnun með afmörkuð verkefni sem getur verið hvar sem er í sjálfu sér. Hún þarf bara að búa við gott umhverfi. Svo háttar til á Siglufirði. Ég legg það til við hæstv. ráðherra að hann skoði það.