Loftskeytastöðin á Siglufirði

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:35:52 (3906)

2000-02-02 18:35:52# 125. lþ. 55.14 fundur 248. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:35]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra foreti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör hans við fyrirspurn minni en jafnframt lýsa yfir vonbrigðum með niðurstöðu þessa máls. Hæstv. ráðherra sagði að starfsmennirnir hefðu eingöngu verið þrír í restina. Ég held þeir hafi nú ekki verið nema tveir. Það er alveg rétt að fjórir voru hættir vegna þess að búið var að gefa það út að þessu yrði lokað. Þeir fóru af staðnum, létu af störfum. Það er nefnilega líka hægt að draga máttinn úr með því að láta vita hvað standi til. Auðvitað munar mikið um þessi störf í ekki stærra samfélagi en sextán hundruð manna byggðarlagi. Auðvitað munar miklu um þau og auðvitað er atvinnulífið fátækara á eftir þegar sex störf hafa verið lögð niður í þessum geira. Það er nefnilega svo að tæknin er tvívirk og hæstv. ráðherra sagði áðan að stöðinni hefði upp á síðkastið verið fjarstýrt að sunnan um nætur. Væri ekki hægt að fjarstýra stöðinni hér fyrir sunnan allan sólarhringinn, t.d. frá Siglufirði suður í Gufunes?

Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um á hvaða stigi við erum í byggðamálum. Við látum allt yfir okkur ganga. Ráðherrar jafnt sem aðrir telja að ekkert sé hægt að gera annað en draga allt hingað suður á höfuðborgarsvæðið. Þetta er eins og ég segi enn eitt dæmi um byggðaáætlun sem er mjög fátækleg og lítið annað en orð á blaði í áætlun, því miður. Enn þá viðhelst sá þjóðarvandi að fólk flytur suður. Hvað ætlum við svo að gera þegar vandinn verður orðinn enn þá meiri? Væri ekki betra að spyrna við fótum strax og snúa vörn í sókn? Það er sannarlega mjög alvarlegt að starfrækslu loftskeytastöðvarinnar á Siglufirði skuli hætt, eins og ég sagði, eftir sextíu og sex ár, og að við skulum ekki nota tæknina til að flytja einhver störf í þessum geira þangað í dag eins og einkafyrirtækin gera. Þau sjá sér mikinn hag í að komast í ódýrara starfshúsnæði kannski, vera með stöðugra vinnuafl og þannig fram eftir götunum.