Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:38:13 (3911)

2000-02-03 10:38:13# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi við dómi Hæstaréttar í svonefndu Valdimarsmáli í desember 1998 eru nú að koma þessum aðilum í koll. Síðan þá hefur óvissa hangið yfir málefnum sjávarútvegsins og gerir enn. Vanstillingarleg viðbrögð einkum hæstv. forsrh. við dómi Héraðsdóms Vestfjarða benda eindregið til þess að ekki eigi að gera neitt og orð hæstv. sjútvrh. áðan staðfesta það. En þetta bendir einnig til þess að það hafi aldrei staðið til að gera neitt og að sáttahjalið fyrir síðustu kosningar hafi verið 100% marklaust og þær nefndir sem skipaðar hafi verið hafi eingöngu haft það hlutverk að drepa málinu á dreif. Þetta eru mjög óskynsamleg og mjög ógæfuleg málefnatök af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hvað sem dómum líður.

Við núverandi ástand í málefnum sjávarútvegsins verður ekki unað. Óbreytt kerfi með þeirri röskun, samþjöppun og gróðasöfnun einstaklinga sem því fylgir verður ekki varið til frambúðar. Það er að mínu mati aðeins tímaspursmál hvenær og hvernig það muni brotna upp. Eina ábyrga leiðin er að horfast í augu við þetta og nota tímann til þess að undirbúa breytingar sem skapað geti meiri sátt um þetta kerfi. Það að taka sénsinn eins og hæstv. sjútvrh. lýsir yfir að ríkisstjórnin velji að gera og veðja á það að dómur Hæstaréttar falli réttu megin, m.a. undir hótunum um heimsendaspár ef hann gerir það ekki, er ábyrgðarleysi, það er algert ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda. Þess vegna gagnrýni ég það og átel að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi skuli ekki þegar í stað leggja grunninn að vinnu sem skapað geti farsælli lyktir þessa máls, herra forseti.