Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:47:43 (3915)

2000-02-03 10:47:43# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi dómur Héraðsdóms Vestfjarða staðfesti í rauninni skoðun meginþorra þjóðarinnar að engin sátt er um framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins eins og við upplifum það nú. Það er engin sátt um það að einstaklingar eða einstök fyrirtæki geti slegið eign sinni á auðlindir sjávarins. Það er engin sátt um að veiðirétturinn, sameign þjóðarinnar, sé tekin frá byggðunum í landinu, frá fólkinu meðfram ströndum landsins og færður í hendur einstaklinga sem versla síðan með hann. Það er engin sátt um að ganga þannig um þessi lög að þarna hafi verið um eignaúthlutun að ræða. Lög eru um úthlutun á veiðirétti. Lögin voru sett til fiskveiðistjórnar á sínum tíma við erfiðar aðstæður en fjölluðu alls ekki um eignaúthlutun.

Herra forseti. Þessi lög sýna að þinginu ber að taka á þessu máli en ekki bara að skjóta sér undan því með orðhengilshætti. Þetta er eitt stærsta mál þingsins til að takast á við og það er eitt stærsta mál þjóðarinnar að færa þennan rétt aftur til fólksins í landinu. Og það, herra forseti, var einmitt Héraðsdómur Vestfjarða að leggja til með sínum dómi.