Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:49:31 (3916)

2000-02-03 10:49:31# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:49]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í hæstaréttardómnum sem kenndur hefur við Valdimar Jóhannesson komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er uppbyggt væri andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi. Það var ekki tilviljun að Hæstiréttur notaði í aðfararorðum sínum bæði orðin veiðileyfi og veiðiheimildir. Hann var að sjálfsögðu að vísa til þess að hann væri sömu skoðunar um úthlutun veiðiheimilda og veiðileyfa. Því er mjög eðlilegt að menn spyrji: Hvernig geta menn stýrt fiskveiðum þannig að stýrikerfið uppfylli jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæðið um atvinnufrelsi? Ég er þeirrar skoðunar að það verði ekki gert nema með því að tryggja öllum Íslendingum jafnan aðgang. Ég er þeirrar skoðunar að það verði ekki gert öðruvísi en svo að afnema þann rétt einstaklinga sem nú telja sig eiga sameiginlegar auðlindir til þess að skattleggja þessa auðlind í eigin þágu eins og menn eru að gera núna.

Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að sá stjórnmálaflokkur sem ber einna mesta ábyrgð á þessu kerfi á engan málsvara í þessum umræðum? Það hefur enginn framsóknarmaður skráð sig inn í þessar umræður. (SJS: Það er enginn í þingsalnum.) Formaður þingflokks Framsfl. lýsti því þó yfir eftir Vatneyrardóminn að hann væri sammála niðurstöðu dómsins. Hvar er hann? Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir að lög um stjórnkerfi fiskveiða þyrftu að vera í stöðugri endurskoðun. Hvar er hann? Hverjar eru raddir Framsfl., höfuðkvótaflokksins á Íslandi að áliti margra, í þessari umræðu? Er það Sjálfstfl. einn sem nú stendur á verði um sérhagsmuni einstaklinganna?