Utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:03:49 (3922)

2000-02-03 11:03:49# 125. lþ. 56.91 fundur 275#B utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða utan dagskrár eitt langvinnasta og mesta deilumál í íslenskum stjórnmálum um árabil og það stingur í augu að einn stjórnmálaflokkurinn á Alþingi hefur ekki tekið þátt í umræðunum. Hér hefur setið einn hv. þm. úr þeim flokki sem situr nú sinn þriðja dag á Alþingi þannig að það er að sjálfsögðu ekki eðlilegt að gerðar séu þær kröfur til þess hv. þm. að hún komi fram fyrir hönd flokksins. En formaður þingflokks þessa sama flokks hefur lýst því yfir að hann væri sammála niðurstöðu héraðsdóms. Hún er mjög í augu stingandi þessi allsherjarfjarvera Framsfl. úr þessum umræðum miðað við það sem á undan hefur gengið.

Hæstv. forseti gerði grein fyrir því í upphafi umræðna áðan að fjarvistarskrá lægi frammi. Nú vildi ég biðja hæstv. forseta að upplýsa okkur úr ræðustól hvaða þingmenn hafa fjarvistarleyfi, hvort það sé svo að allir þingmenn Framsfl. utan sá eini hv. þm. sem hér hefur setið og hlustað á umræður, hafi fjarvistarleyfi. Ef svo er ekki þá er fjarvera Framsfl. í þessum umræðum enn meira áberandi.