Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:16:50 (3932)

2000-02-03 11:16:50# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að skipta árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum milli íbúa landsins. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og galla þess að árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum verði skipt jafnt milli allra íbúa landsins. Nefnd, sem sjávarútvegsráðherra skipaði í september 1999 og hefur það hlutverk að endurskoða og koma með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða, verði falið að hafa forgöngu um að gera þessa könnun og henni verði lokið 1. september 2000.``

Ég vil undirstrika, herra forseti, að hér er lagt til að kannaðir verði kostir og gallar þessarar tillögu.

Herra forseti. Á 122. löggjafarþingi var flutt tillaga sama efnis en fékkst ekki útrædd. Ýmislegt hefur gerst síðan og ber þar hæst dóm Hæstaréttar frá 3. desember 1998 og einnig dóm Héraðsdóms Vestfjarða í hinu svonefnda Vatneyrarmáli. Úthlutun byggðakvóta hefur auk þess átt sér stað og aukin umræða er um fólksflótta af landsbyggðinni sem sumir kenna fiskveiðistjórnarkerfinu um. Nú síðast bárust tíðindi af gífurlegri sölu á hlut í sjávarútvegsfyrirtæki. Ný ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur tekið við völdum og í stefnuyfirlýsingu hennar stendur m.a. að stjórnin ætli ,,að vinna að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.`` Það er í anda þessarar stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem þáltill. er flutt.

Með flutningsmanni vann Markús Möller hagfræðingur og skrifaði hann III. kafla greinargerðarinnar.

Úr forsendum kvótadóms Hæstaréttar les ég þá niðurstöðu að allir eigi að hafa sama rétt til að stunda fiskveiðar þegar til langs tíma er litið. Þá dugir ekki að fólk megi fara á sjó heldur verður það að fá að veiða einhverja fiska. Ég sé aðeins tvær meginlausnir á þessum vanda. Annars vegar þá að ríkið bjóði upp aflaheimildir á einhvern hátt og allir séu jafnsettir að bjóða í, eins og áhugahópur um auðlindir í almannaþágu leggur til. Hins vegar er sú leið sem hér er lögð til, að einstaklingar í landinu fái aflaheimildirnar allir jafnt.

Á þessum leiðum er nokkur munur. Sú fyrri felst í stóraukinni ríkisvæðingu sem flokkur minn er almennt á móti. Hin síðari byggist á almannavæðingu þar sem einstaklingurinn er í öndvegi. Sú fyrri, þ.e. uppboð á kvóta, þýðir að einn aðili býður upp og getur beitt afarkostum, þ.e. ríkisvaldið, t.d. sett lágmarksverð o.s.frv. Hann mun óhjákvæmilega bjóða upp í stórum einingum og einstaka sinnum yfir árið.

Sú leið sem ég legg til í þáltill. minni þýðir að 100 þúsund bjóðendur eða fleiri séu að bjóða kvóta og það er meira jafnræði á milli seljenda og kaupenda sem gætu t.d. verið trillukarlar. Það yrði alvöru, óskekkt og samfelld markaðssetning allt árið eins og við þekkjum t.d. á húsbréfamarkaði. Fyrri leiðin, þ.e. uppboð, er eingöngu mál ríkis og útgerðar. Seinni leiðin snertir alla þjóðina, hvern einstakling.

Herra forseti. Greinargerð tillögunnar er í níu köflum. Því miður vinnst ekki tími til að fara ítarlega yfir alla greinargerðina en hún er 19 síður. Það er útilokað að fara yfir hana alla á 15 mínútum og því mun ég stikla á meginatriðum en vísa að öðru leyti til grg.

Um hvað snýst kvótaumræðan? Þegar rætt er um kvótamál er brýnt að halda vel aðskildum eftirfarandi þáttum:

Fiskveiðistjórnarkerfinu, þ.e. hvort notað er aflamark eða sóknarmark.

Framsali kvóta. Í hvoru tveggja kerfinu yrði að hafa framsal kvóta hvort sem það yrði aflamark eða sóknarmark.

Eignarhaldið á kvótanum, sem myndast í báðum kerfunum og svo árlegum og varanlegum kvóta.

Að síðustu vísindalegri stjórnun fiskveiða.

Í umræðunni hefur þessum þáttum nokkuð mikið verið ruglað saman. Menn tala almennt um kvótakerfið en eiga þá við einstaka þætti sem hér eru nefndir.

Umræðan meðal almennings snýst aðallega um eignarhald á veiðiheimildum út frá réttlætissjónarmiðum. Hvernig geta útgerðarmenn selt fiskinn í sjónum, sameign þjóðarinnar, fyrir hundruð millj. kr.? Önnur sjónarmið hafa komið upp að undanförnu þegar fólk sér varanlegar veiðiheimildir hverfa úr einstökum byggðarlögum. Íbúunum eru allar bjargir bannaðar þar sem nýir aðilar geta ekki hafið útgerð við núverandi kerfi. Það er útilokað að nýir aðilar geti hafið útgerð og keypt veiðiheimildirnar á yfir 100 kr. kílóið.

Fyrra sjónarmiðið, þ.e. um eignarhaldið, snýr að sameign þjóðarinnar og það síðara að hegðun einstaklinga sem rædd verður hér á eftir þegar velt verður upp þeirri spurningu hvort auðlind þjóðar geti yfirleitt verið í eigu einstaklinga. Niðurstaða mín er sú að kvótaumræðan snýst fyrst og fremst um eignarhald á fiskveiðiheimildunum.

Spurt er: Hvers vegna þarf að breyta? Það er mikil óánægja með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi meðal almennings, þá sérstaklega með eignarhaldið. En það er líka hættulegt að hafa núverandi kerfi vegna þess að einstaklingar sem hafa tök á auðlindinni hegða sér alltaf miðað við eigin hagsmuni, sama hvort þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Þannig munu Íslendingar hegða sér nákvæmlega eins og útlendingar, ef þeir hefðu fiskveiðiheimildirnar á sinni hendi. Þetta hefur komið í ljós þegar útgerðarmenn sem þrátt fyrir að þeim þyki vænt um átthaga sína selja kvótann úr byggðinni vegna þess að þeir hagnast á því og losna hugsanlega úr skuldum jafnframt.

Herra forseti. Veltum upp þeirri spurningu hvort auðlind þjóðar geti verið í eigu eða forsjá einstaklinga. Í umræðu um eignarhald á fiskveiðiheimildum heyrist iðulega að fiskimiðin í kringum landið séu auðlind þjóðarinnar. Að því gefnu að sátt sé um hugtakið þjóð er rétt að skoða hugtakið auðlind þjóðar. Það er væntanlega eitthvað sem færir þjóðinni tekjur án þess að hún þurfi að vinna sérstaklega fyrir þeim. Getur auðlind þjóðar verið í eigu eða á forsjá einstaklinga?

Ef hagur einstaklingsins af auðlindinni rekst á hagsmuni þjóðarinnar mun einstaklingurinn, sem ræður yfir eða tekur ákvörðum um auðlindina, að sjálfsögðu taka ákvörðun í samræmi við hagsmuni sína nema mjög litlu muni. Við höfum séð að fólk selur og flytur kvóta frá heimabyggð sinni, jafnvel þótt því þyki vænt um átthaga sína. Þannig má rökstyðja að ekki er hægt að líta á auðlind í eigu eða á forsjá einstaklinga sem auðlind þjóðar.

Núverandi kerfi þar sem umráðaréttur yfir auðlindinni er í höndum tiltölulega fárra einstaklinga útilokar að hægt sé að líta á fiskimiðin sem auðlind íslensku þjóðarinnar. Þá mætti spyrja: Til hvers var þá landhelgisbaráttan? Verði ekki breyting á umráðarétti yfir fiskimiðunum er mikilvægt að hætt verði að vernda sjávarútveginn með þvílíkum lagabálkum og hann þarf að búa við í dag. Þá er líka eins gott að hætta að telja fólki trú um að auðlindin sé eign þjóðarinnar og snúa sér að öðru.

Þeir sem ráða yfir auðlindinni munu ekki hegða sér einungis með hag átthaganna í huga. Þeir munu flytja kvótann frá heimabyggðinni ef á þarf að halda og þeir munu líka hætta að hugsa um hagsmuni Íslands sem ættjarðar sinnar. Þeir munu að sjálfsögðu hegða sér nákvæmlega eins og útlendingar þegar kemur að því að flytja afurðir út eða stýra veiðum.

Í greinargerðinni er fjallað nokkuð um hugmyndir erlendra hagfræðinga. Ég ætla að fara þar mjög hratt yfir sögu. Þar eru þrír nefndir til sögunnar, Nóbelsverðlaunahafar sem allir eru baráttumenn fyrir frjálshyggju. Þeir segja að ábatinn af einkavæðingunni renni eingöngu til þeirra sem tekst að hrifsa til sín eignarréttinn eða tryggja sér hann með öðrum hætti, hann renni ekki til þjóðarinnar almennt.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir dóm Hæstaréttar en vil geta þess að þegar hann birtist las ég hann mjög ítarlega. Ég taldi mig komast að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Vestfjarða komst síðar að, að ekki sé nægjanlegt að veita öllum þeim sem eiga skip veiðiheimildir. Það þarf líka að leyfa þeim að veiða einhvern fisk.

Í þáltill. er gert ráð fyrir að könnuð verði áhrif hugmyndarinnar á mismunandi hópa, sjómenn, fiskvinnslufólk, sveitarfélög o.s.frv., einnig á hagvöxt og samkeppnisstöðu. Einnig yrðu könnuð áhrifin á útgerðina og þjóðhagsleg áhrif en ég fer ekki nánar ofan í það.

Sú tillaga sem hér er rædd er sú eina sem fram hefur komið sem er tæknilega fullkomlega útfærð. Fyrir tveimur dögum kom reyndar fram tillaga frá áhugahópi um fiskveiðikvóta þar sem þeir útfæra aðra hugmynd sem byggir á uppboði. Það er þá önnur tillagan sem hefur komið fram. Aðrar útfærðar tillögur hafa ekki komið fram.

Kosturinn við þessa tillögu, herra forseti, er að hún eykur ekki ríkisumsvif. Hún bætir samkeppnisstöðu Íslands vegna þess að fyrirtæki á Íslandi búa við það að einstaklingar sem vinna hjá þeim fá kvóta við að búa á Íslandi, nokkuð sem fyrirtæki í útlöndum búa ekki við. Íslensk fyrirtæki öðlast því betri samkeppnisstöðu gagnvart erlendum fyrirtækjum. Þá væri einnig möguleiki þegar allir fá eingreiðslu á hverju ári sem er reyndar óviss, háða markaðslögmálum, að taka upp flatan tekjuskatt. Þetta kerfi yrði afskaplega félagslegt. Það er gert ráð fyrir að allir fái kvóta, öryrkjar, aldraðir, barnafólk og börn. Þetta er því mjög félagslegt kerfi. Þá er hugsanlegt að taka megi út úr skattkerfinu þann félagslega þátt, persónuafsláttinn, sem að mínu mati veldur því að fólk er ekki lengur eins viljugt til að vinna og setja á flatan tekjuskatt.

Í grg. kemur fram að best reknu fiskveiðifyrirtækin í útgerð á Íslandi ná ekki nema 10--30 kr. á kg í hagnað af fiskveiðiheimildum. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða. Þau gætu ekki borgað meira en svona 10--15 kr. á kg ef þau ættu að kaupa allan kvóta. Það er að mínu mati verðið sem kvótinn mun nálgast þegar þetta kerfi verður komið í fullan gang. Ég geri ráð fyrir að það verði mikill hvati til aukinnar arðsemi þannig að verðið gæti hugsanlega farið upp í 20--30 kr. Herra forseti. Það merkilega er að það verða sennilega trillukarlar sem geta boðið best. Sennilega geta trillukarlar veitt fiskinn ódýrast vegna þess að fjárfestingin á bak við hvern sjómann á trillu er miklu minni en fjárfestingin á bak við hvern sjómann á skuttogara. Það er því hugsanlegt að mikil breyting verði á --- og hér gengur fulltrúi sjómanna inn í salinn --- að trillukarlar á Vestfjörðum munu sennilega geta boðið best í kvótann og fengið eins mikinn kvóta eins og þeir þurfa til að veiða alla þá daga ársins að þeir komast á sjó.

Herra forseti. Hugmyndin hefur verið gagnrýnd, t.d. sagt að hún valdi byggðaröskun. Fullyrt er að slík dreifing skaði landsbyggðina vegna þess að íbúarnir fái miklu minni aflahlutdeild en fyrirtæki á staðnum þurfa að kaupa. Í grg. tek ég dæmi af Vestmannaeyjum þar sem íbúarnir fengju 1,7% af öllum aflaheimildum en fyrirtæki á staðnum þyrftu að kaupa 11--12% af öllum aflaheimildum til að veiða sama magn og hingað til. Þessi fullyrðing væri rétt ef Vestmannaeyjar væru lokað hagkerfi og ef íbúar Vestmannaeyja væru jafnframt allir í útgerð. En svo er ekki. Útgerðarfyrirtæki í Vestmannaeyjum eru í eigu stórra fjárfesta í Reykjavík. Fólk í Vestmannaeyjum stundar ekki útgerð almennt. Spurningin er því: Hvaða útgerðarfyrirtæki getur veitt ódýrast? Af hverju skyldi vera útgerð í Vestmannaeyjum og hafa verið um aldir? Vegna þess að fiskurinn er rétt við Eyjarnar og þar er ódýrast að róa til fiskjar frá Vestmannaeyjum og kannski Vestfjörðum. Þeir sem geta veitt fiskinn ódýrast geta að sjálfsögðu boðið mest í kvótann og fá hann. Þetta er einmitt kosturinn við þessa tillögu. Þessi mikla markaðsvæðing mun laga stöðu landsbyggðarinnar, t.d. Grímseyjar.

Einnig er líka tekið á því hvort kvótinn safnast á fáar hendur. Því er svarað í grg., einnig hvort hugmyndin er framkvæmanleg og hvort slíkt kerfi sé til erlendis.

Ég hef því miður ekki meiri tíma, herra forseti, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til hv. sjútvn.