Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:40:28 (3934)

2000-02-03 11:40:28# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:40]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir athugasemdir hans. Hann tekur á nokkrum atriðum sem eru útfærsluatriði og að sjálfsögðu nákvæmlega útfærð af því að ekki vildi ég láta fólk gagnrýna tillöguna fyrir að vera illa útfærð. Það er ósköp eðlilegt að reynt sé að sjá fyrir alla enda og anga sem koma til, t.d. hverjir teljist til þjóðar og líka t.d. hvernig eigi að skipta upp kvótanum. Ég tók það nákvæmlega fram til að það fari ekki á milli mála svo að allir geti skilið um hvað er að ræða. Þetta er fyrsta og eina tillagan sem hefur verið útfærð á þennan hátt, herra forseti.

Um það hvort búin eru til ný verðmæti, þá eru búin til ný verðmæti í dag. Það vill svo til að fyrir tveim dögum eða einum degi var einhver að selja kvóta á 3.100 millj. Það eru ný verðmæti sem sá einstaklingur fær út úr kerfinu. Það er ekki endilega að hann fjárfesti aftur í sjávarútvegi, hann þarf þess ekki og margir hafa ekki gert það. Þeir hafa fjárfest í Kringlum og slíku eða í útlöndum. Þetta eru þau nýju verðmæti sem ég tel að hafi skapast og sé sjálfsagt að þjóðin njóti.

Það var ýmislegt sem hv. þm. sagði, t.d. að leggja niður togaraútgerð. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum hann les það út úr tillögunni. Það eina sem ég sagði var það að trillukarlar gætu hugsanlega boðið meira í þorsk sem þeir veiða, en að þeir veiði grálúðu datt mér aldrei í hug og mér dettur ekki annað í hug en frystitogararnir geti boðið í kvóta líka.

Varðandi skattskyldu er að sjálfsögðu lagt til að þetta verði skattskylt eins og aðrar tekjur. Það verði hugsanlega tekin af því staðgreiðsla. Framkvæmdin er ákaflega einföld nú á dögum, sérstaklega eftir að komin verður rafræn skráning verðbréfa. Þá er þetta afskaplega einfalt og verðbréfamarkaðurinn ræður við þetta með mjög litlum kostnaði.