Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:42:32 (3935)

2000-02-03 11:42:32# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:42]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum að hv. þm. skyldi ekki koma að því að hann hefur gerst talsmaður þess að við færum að styrkja sjávarútveginn með opinberum framlögum eins og stendur á bls. 2 í grg. hans. Mér þótti hitt undarlegt að hann skyldi halda því fram að Þorsteinn Vilhelmsson, sá mikli aflamaður, hafi tekið nýjar fúlgur út úr kerfinu. Ég veit ekki hvort þessum hv. þm. er kunnugt um að Þorsteinn Vilhelmsson átti engar eignir og hann átti engan kvóta þegar kvótakerfinu var komið á. Það er algerlega rangt ef hv. þm. er að gefa það í skyn. Þvert á móti keyptu þeir frændur fyrirtæki syðra sem hét Samherji, átti pólskan togara, Guðstein, sem hafði ryðgað og legið við bryggju svo mánuðum skipti, ég hygg í eina 8--9 mánuði, þegar þeir keyptu þann togara, hófu síðan útgerð á honum ásamt með Skagstrendingi og lögðu grunninn að því að kaflaskipti urðu í íslenskum sjávarútvegi með því að við Íslendingar náðum tökum á sjófrystingu og þeim möguleikum sem því fylgdi.

Jafnframt hefur fyrirtækið Samherji markað kaflaskil með því að það hefur lagt mikið af mörkum til að afla heimilda utan 200 mílnanna og haslað sér völl í ýmsum löndum við Atlantshafið til að breikka grundvöll íslensks sjávarútvegs og sýna fram á þann möguleika sem okkar mikla þekking á því sviði gefur okkur ef rétt er á haldið. Því er algerlega ómaklegt af hv. þm. að vera hér með skæting í garð þess merka og mikla athafnamanns Þorsteins Vilhelmssonar.