Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:44:33 (3936)

2000-02-03 11:44:33# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða einstök fyrirtæki hérna. En ég var ekki með neinn skæting. Ég var bara að geta þess sem er staðreynd að þarna voru seld mikil verðmæti og ég var ekkert að segja að það væri ómaklegt, ég sagði það aldrei þannig að það getur mjög vel verið og ég tel það meira að segja að Samherji sé mjög vel að þeim hagnaði kominn sem þeir hafa því þeir hafa rekið fyrirtækið afskaplega vel.

Varðandi það að þetta væru styrkir til sjávarútvegsins, þá skil ég það nú ekki. Hvergi kemur fram að það eigi að styrkja sjávarútveginn á nokkurn hátt. Þetta eru meira að segja, eins og hv. þm. sagði, kvaðir á sjávarútveginn frekar en hitt en ekki styrkir.

Það sem hann gat um áðan að sjútvrn. ætti að sjá um hlutina. Það sér aldeilis um hlutina í dag. Sennilega er engin atvinnugrein í heiminum eins mikið undir reglum og lögum og sjávarútvegur á Íslandi. Það er meira að segja þannig að útgerð fjallar meira um lögfræði en veiðarfæri og fisk. Það er yfirleitt lagt til í þeim tillögum, sem hv. þm. gat ekki um, að létt yrði af útgerðinni öllum þeim kvöðum sem er búið að leggja á hana í áranna rás vegna þess að menn hafa með krampakenndum hætti reynt að halda auðlindinni hjá þjóðinni, þ.e. ríkinu. Menn hafa sett samasemmerki milli þjóðar og ríkis. Til að halda auðlindinni hjá þjóðinni er bannað fyrir útlendinga að fjárfesta, það eru þessar reglur og hinar reglurnar, framsalskvaðir o.s.frv. Allt þetta yrði óþarft ef þjóðin fengi kvótann fyrir fram og mundi selja hann á uppboði. (GAK: Er sama hver veiðir?)