Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:03:03 (3942)

2000-02-03 12:03:03# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. svari því að nokkru leyti sjálfur í tillögu sinni með hugmyndum um að styrkja byggðarlög sem yrðu undir í samkeppninni hvaða afleiðingar slíkur fullkomlega frjáls markaður geti haft og reyndar stöndum við frammi fyrir því nú þegar í því markaðskerfi sem að hluta til er í dag með frjálsu framsali veiðiréttindanna þrátt fyrir þá úthlutun sem byggt er á í grunninn, að menn eru komnir með byggðakvóta og menn eru komnir með ýmsar aðgerðir vegna þess að hliðarverkanir eða aukaverkanir af kerfinu eru slíkar gagnvart ýmsum byggðarlögum að menn treysta sér ekki til að horfast í augu við þær án þess að grípa til aðgerða. (PHB: Vegna fortíðar?)

Ég talaði ekki um réttarstöðu útgerðarinnar eingöngu. Þvert á móti minnti ég á hina meginaðilana í sjávarútveginum sem allt of lítið hafa fengið að koma inn í þessa umræðu og spurninguna um réttarstöðu og atvinnuréttindi þeirra, fiskverkafólks, fólksins í sjávarútvegsbyggðunum og auðvitað sjómannanna sjálfra sem ekki hafa þarna neinn skilgreindan lögvarinn rétt. Við erum í verkaskiptu þjóðfélagi. Það erum við hv. þm. sammála um, en það ríkir alls ekki frelsi gagnvart öllum atvinnugreinum með sama hætti og kannski gerir í smásöluverslun á höfuðborgarsvæðinu. Komið er við ýmsum takmörkunum og þær eru kannski aðallega af tvennum toga. Annars vegar felast takmarkanir í kröfum sem gerðar eru til ýmissa starfsgreina. Það er talið óhjákvæmilegt að gera kröfur um menntun og hæfni og ýmsa slíka hluti sem sjálfkrafa leiða af sér takmarkanir, að ekki geti allir labbað inn af götunni og hafið lækningar eða annað því um líkt. Hins vegar höfum við orðið sammála um að nauðsynlegt sé að innleiða takmarkanir í þágu almannaheilla, t.d. vegna þess að annars yrðu fiskstofnarnir ofnýttir eða vegna þess að ef ekki væru takmarkanir á einhverjum sviðum samgangna eða öðru slíku, þá yrði af því ringulreið og vitleysa og dæmi um það gæti þá verið leigubílaaksturinn í Reykavík. Þess vegna erum við með ákveðna sambúð frelsisákvæða og takmarkana sem af mismunandi ástæðum hefur þótt nauðsynlegt að innleiða.