Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:05:26 (3943)

2000-02-03 12:05:26# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru orð hv. þm. um atvinnuréttindi sem fengu mig til að koma hér upp í andsvari. Mig langar til að fá að vita nákvæmlega hvað hv. þm. á við með tali um atvinnuréttindi í sjávarútvegi. Eru þessi atvinnuréttindi réttindi sem eru seljanleg eða eiga að vera seljanleg? Eru þetta atvinnuréttindi sem hafa orðið til vegna þess að menn hafa verið í einhverri tiltekinni starfsemi og hafi rétt til að vera í henni áfram eða eru þetta réttindi sem menn geta selt? Eru þetta þess vegna hlunnindi, sérréttindi eða eignarréttindi?

Ég kann ekki annað dæmi um það en úr sjávarútveginum ef þetta ætti að kallast atvinnuréttindi, að menn geti selt atvinnuréttindi sín. Og það eru eingöngu þeir sem hafa verið eigendur útgerða sem hafa þessi réttindi, ekki sjómennirnir, ekki fólkið á ströndinni heldur eingöngu þessi útvaldi hópur. Og ef á að skilgreina þetta sem atvinnuréttindi, þá þurfa menn að koma með skýrari skilgreiningu en ég hef heyrt fyrr vegna þess að nú er verið að kaupa og selja það sem ég vil kalla hlunnindi, sérréttindi eða eignarréttindi. Önnur orð hef ég ekki fundið sem geta passað við þau réttindi sem núna tíðkast í sjávarútvegi.