Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:07:19 (3944)

2000-02-03 12:07:19# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi annaðhvort misskilið mig algerlega eða þá að hann er að reyna að leiða mig í einhverja gildru sem ég ætla ekki að ganga í. Ég var ekki að tala um kvótakerfið og úthlutun þess til útgerðarinnar sem nú er við lýði. Þvert á móti var ég að varpa fram spurningum sem lúta að stöðu annarra aðila í þessari grein og ég hélt að það hefði komið skýrt fram. Ég nefndi sjómenn, fiskverkafólk og ég nefndi sjávarútvegsbyggðarlögin.

Það sem auðvitað gerist þegar kvótakerfinu er komið á og sú takmörkun verið við lýði, þá eru réttindin færð einum aðila, þ.e. útgerðinni sem getur höndlað með þau eins og við þekkjum báðir mætavel, en það er ekkert litið til stöðu annarra sem eru komnir í annað samhengi með hagsmuni sína en þeir voru áður á meðan kerfið var opið og frjálst. Það er auðvitað augljóst mál. Staða fiskverkafólks í byggðarlögunum er önnur núna og lakari en hún var á meðan kvótakerfið var ekki komið og takmarkanir af því tagi því að þröskuldurinn til að hefja útgerð og ná sér í hráefni til vinnslu var lægri. Það var spurningin um þá réttarstöðu og atvinnuréttindi sem eru vernduð víða í þjóðfélaginu. Það eru löggiltar faggreinar og alls konar atvinnuréttindi í gangi, ekki satt? Við getum ekki farið og keyrt leigubíl á föstudaginn kemur, ég og hv. þm. Pétur Blöndal. Ég get ekki farið að kalla mig landslagsarkitekt á morgun og opnað arkitektastofu o.s.frv. Spurningin er þar af leiðandi sú hvort starfsfólkið sem byggt hefur upp þessa grein, fiskverkafólk, sjávarútvegsbyggðirnar, sjómennirnir og út af fyrir sig aðrir sem að henni koma vegna þjónustu við hana, sölu afurðanna o.s.frv., hafi að öllu leyti 100% sambærilega stöðu við þann hluta landsmanna eða afgang landsmanna sem aldrei hafa nálægt sjávarútvegi komið. Erum við komin út á þá braut að túlka jafnræðis- og frelsisákvæði stjórnarskrárinnar þannig að engum slíkum atvinnubundnum réttindum verði við komið og þá er ég ekki, og ég endurtek það aftur, ég er ekki að tala um kvótann hjá útgerðinni í því samhengi.