Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:33:12 (3950)

2000-02-03 12:33:12# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ef við erum að leita að kerfi sem finnur ódýrustu leiðina til að ná aflanum, þá erum við með þá aðferð nú þegar í gangi, þ.e. kvótakerfið. Það hefur leitt til þess að menn hafa sífellt verið að reyna að bæta veiðiaðferðirnar, minnka sóknargetuna til að ná meiri arði og hagkvæmni út úr veiðinni. Þetta þekkjum við sem höfum getað borið þetta saman við sóknarstýrikerfið þar sem allir hópuðust á sjó í kapp hver við annan til að ná sem mestu á sem skemmstum tíma. Kvótakerfið er alveg þveröfugt við þetta og þess vegna hefur það reynst eins hagkvæmt og raun ber vitni fyrir þjóðina að stýra veiðunum í aflaheimildirnar á þann hátt. Þess vegna er alveg ástæðulaust að fara út í aðrar tilraunir með einhverja öfgafulla hugmynd sem enginn getur í sjálfu sér áttað sig á hvernig mundi enda. Ég tel að við séum að taka ótrúlega áhættu á því hvernig þjóðin mundi fara út úr slíku dæmi fjárhagslega og sem sjálfstæð þjóð værum við að fara út í algera ófæru.

Ég held að við eigum að sameinast um að reyna að finna leiðir til að gera kvótakerfið ásættanlegra fyrir þjóðina en það er í dag. Eflaust má reyna að finna einhverjar leiðir sem ég vona að þær nefndir sem núna eru í gangi reyni að finna eða þær voru alla vega settar upp til þess. Ég hef kallað eftir því að þessi blessaða nefnd sem sett var upp til að finna leiðir til að verðleggja mætti auðlindir okkar fari að láta eitthvað frá sér heyra.