Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:40:09 (3953)

2000-02-03 12:40:09# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það sem fyrst og fremst er að er framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar og það sem fyrst og fremst er að framkvæmdinni er ósveigjanleikinn. Enginn möguleiki er til að bregðast við breytingum og uppákomum svo sem aflabresti í ákveðnum tegundum svo eitthvað sé nefnt. Framkvæmdin býður upp á að einstaklingar geta farið með gífurlega fjármuni frá sameign þjóðarinnar, langtum meiri fjármuni en nokkurn mann grunaði að gætu hlaðist á einn einstakling. Einmitt þess vegna eru menn að setja fram tillögur til breytinga. Ég fagna hverri einustu tillögu og nánast hver einasta tillaga sem sett hefur verið fram upplýsir um galla á stjórnarkerfinu eða a.m.k. á framkvæmd kerfisins. Þetta á við um fjölmargar tillögur stjórnarliða sem sjá galla kerfisins, sem sjá misréttið, sem sjá ósómann. Þess vegna fagna ég tillögu hv. þm. Péturs Blöndals. Í hana hefur verið lögð mikil vinna og mikil hugsun. Hún er í samræmi við það sem fjöldi manna og kvenna í landinu hugsar.

Það stendur nefnilega í lögunum að nytjastofnarnir séu í sameign þjóðarinnar og tillagan sem hér er til umræðu lýtur að því í framkvæmd og þess vegna get ég sagt af heilindum, ég fagna tillögunni.

Stjórnarandstaðan hefur eins og ég sagði flutt aragrúa af tillögum. Þær fást varla ræddar. Stjórnarliðar, m.a. hv. þm. Guðjón Guðmundsson og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hafa lagt fram tillögur sem enga náð hafa hlotið fyrir augum þingsins eða ráðamannanna í ríkisstjórninni. Þessar tillögur svo ég nefni þær lúta að því að koma í veg fyrir brask og koma í veg fyrir brottkast. Ekki er hlustað á þær tillögur. Ég vil meina að þetta sé dæmigert fyrir stjórnunarstílinn hjá Davíðsstjórninni. Fótgönguliðarnir mega gjamma en á þá er ekki hlustað. Því miður hygg ég að svo verði með ágæta vinnu og þá hugmyndafræði sem er á bak við tillögu hv. þm. Péturs Blöndals að á hana verði ekki hlustað. Það er því miður spádómur minn. En ég tel að hún sé samt einn liður inn í það fjölþætta kerfi tillagna sem menn hafa lagt fram gegn framkvæmd þess kerfis sem við búum við.

Það er, herra forseti, ástæða til að fara nokkrum orðum um verstu galla kerfisins en þeir eru m.a. eftirfarandi. Það eru braskmöguleikarnir, það er brottkastsneyðin eins og ég vil kalla hana, brottkastsneyðin vegna þess að menn eru neyddir til að henda á brott verðlausum eða verðminni afla. Það er milljarðaflutningur úr atvinnugreininni og hömlur eru á atvinnufrelsi.

Ég tel að til viðbótar sé rétt að geta þess svona í framhjáhlaupi að grálúðan, sem er einhver verðmætasti fiskurinn í dag, er nánast upp veidd. Það tekur að mati fiskifræðinga 15--18 ár, jafnvel meira, að byggja hann upp. Ég veit að stofninn er á uppleið en kannski hafa fiskifræðingar ekki rétt fyrir sér í þessu.

[12:45]

Ufsastofninn er í mikilli lægð en hann er að koma. Það vantar mikið á að hann geti skilað sömu veiðigetu og á milli áranna 1960 og 1980. Lúðu hefur verið eytt í Faxaflóa, bókstaflega gersamlega eytt en hún var algeng tegund í afla línubáta og í dragnót. Lúðan í Faxaflóa er horfin. Um ástandið á karfastofninum veit hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson manna best af þekkingu sem skipstjóri. Karfastofninn er mjög illa kominn. Menn eru að drepa þar fisk sem tekur meira en áratug að verða kynþroska. Þessi stofn hefur verið ofveiddur á því sem ég vil kalla got- og getnaðartíma um árabil meðan þorskstofninn naut verndar. Þetta eru alvarlegir hlutir sem þarf að taka á. Ýsustofninn er í lægð og leyfð veiði hefur ekki náðst.

Ég vil segja það, herra forseti, að ástæða er til að koma með tillögur eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt hér fram og fjölmargir hv. þm. Ég minni á að undirritaður flutti tillögu með fyrrv. þm. Ágústi Einarssyni um að auka veiðiskyldu skipa í 80%. Sú hugmynd var í þá átt að koma í veg fyrir brask eða minnka brask, sú tillaga hlaut enga náð fyrir augum stjórnarherranna frekar en aðrar tillögur sem fluttar hafa verið. Ég býst því við, herra forseti, að á hvorn veginn sem Vatneyrarmálið fer, hvort sem dómur héraðsdóms verður staðfestur í Hæstarétti eða jafnvel þó að honum verði hafnað, að allt verði vitlaust og ekki síst vegna þess að fólk hefur verið að átta sig á því að á undanförnum dögum eða a.m.k. á undanförnu ári er komin sérstök stétt sem kalla mætti í daglegu tali töskubankastjóra. Hvernig þrífast þeir?

Jú, þeir hafa af einhverjum ástæðum jafnvel komist yfir kvótagróða, leggja hann fram sem 30% veð á móti erlendum fjármunum, koma inn í íslenska hagkerfið með þessa peninga, nota þá m.a. til hlutabréfakaupa og hafa skapað þann þrýsting á krónuna að búast má við gengisfellingu mjög fljótlega, bara út af því fyrir utan svo allt annað.

Herra forseti. Ég hef margt fleira um þetta mál að segja og kem kannski inn á það síðar en ég læt staðar numið í bili.