Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:58:43 (3956)

2000-02-03 12:58:43# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var reyndar ekki að tala um hraðskreiða fiskibáta út frá öryggissjónarmiði. Ég var að tala um þá út frá hagkvæmnissjónarmiði, hve auðvelt þeir eiga með að fara til sjávar á örskömmum tíma þegar þannig viðrar, hvað þeir eru fljótir í förum og geta afkastað miklu. Ég hygg að flest þau óhöpp sem hafa orðið hjá smábátaflotanum á undanförnum árum tengist ekki endilega því að þau hafi orðið fyrir miklum óhöppum vegna veðurs eða hraða. Ég held miklu frekar að þau hafi orðið fyrir óhöppum vegna hleðslu, vegna mikils afla, mikilla afkasta. Ég hef ekkert sértakar áhyggjur af hraðanum.

Í reynd er það þannig og hefur vissulega komið mér sjálfum á óvart, eftir að ég hef prófað að vera á þessum hraðfrystibátum, hvað þetta eru í raun miklu meiri sjóskip en sambærilegir bátar af trillustærðinni áður. Það er einmitt á því sem ég byggi það að ef þessu væri nú öllu hleypt óstýrt af stað þá gæti farið svo að trilluútgerðin mundi safna til sín aflaheimildum. Ég held að það sé ekki síður hagur togaraútgerðanna eða hins almenna útgerðarmanns á stærri skipum að sett verði stýring á flotann og menn takist á við þetta sem atvinnugrein sem þarf að hafa svolitla flóru fiskiskipa en ekki að æða tilviljunarkennt yfir í fjölda frystitogara annan áratuginn og síðan í smábáta hinn áratuginn. Slík stýring held ég að sé ekki af hinu góða.