Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:42:12 (3960)

2000-02-03 13:42:12# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem ég tel nauðsynlegt að komi fram í umræðunni. Ég held eins og hv. þm. Pétur Blöndal bendir á að kapítalið, fjármagnið eiri engu og þess vegna er ég honum sammála um þær bollaleggingar og þá sýn sem hann setur fram í tillögu sinni. Ég tel að við þurfum að hafa svona hluti að leiðarljósi þegar við fjöllum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Hvaða sýn sem maður hefur eða lífsstíl eða lífsmáta þá er það nefnilega ekkert sjálfgefið, eins og hv. 10. þm. Reykv., Pétur Blöndal, kemur inn á, að útgerðin stöðvist við á þessum fimm eða sjö stöðum með því fyrirkomulagi sem við höfum keyrt eftir nú um nokkurra ára skeið, eins og ég nefndi. Það er áhyggjuefni Íslendinga að horfa fram á að eignarhald á grunnatvinnuþáttunum, grunnatvinnunni í landinu færist til útlanda á eignarhaldsfélög eins og ég tel að við höfum þegar fengið forsmekkinn af. Þjóðin klappar fyrir mönnum sem eiga peninga og hafa kannski að mestu leyti dregið þá út úr sjávarútveginum, mönnum sem eiga peninga og eru að þreifa fyrir sér í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi eins og það er kallað, þreifa fyrir sér. Það er atrenna, er það ekki, að því að stunda og rækta auðlindina kannski frá ströndum meginlands Evrópu en ekki héðan eins og ég tel að þorri þjóðarinnar sé sammála um að við eigum að gera. En í blindni erum við með allt aðra stefnu í gangi sem mun að óbreyttu leiða til þess að sú sýn sem sett er fram í greinargerðinni hjá hv. þm. mun rætast og við viljum hana ekki.