Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:48:03 (3963)

2000-02-03 13:48:03# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þá tillögu sem hann leggur fram og þá augljóslega miklu vinnu sem hann hefur lagt í þessa tillögugerð. Ég held að það sé til mikillar fyrirmyndar að menn reyni að nálgast þetta verkefni eins og hv. þm. gerir og það er alveg augljóst þegar menn fara yfir þá greinargerð sem þessari tillögu fylgir að í hana hefur verið lögð mikil vinna. Hins vegar má benda á, og það jaðrar kannski við útúrsnúning, að tillagan gerir ráð fyrir að hlutir verði skoðaðir og ætlast til að hún verði samþykkt, en síðan er greinargerðin meiri útfærsla á hugmyndum hv. þm. Kannski hefði hann mátt gera ítarlegri grein fyrir þessari tæknilegu útfærslu í tillögunni en gera það ekki einungis í greinargerðinni. En þetta er í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins.

Grundvallarhugsun hv. þm. í þessu máli virðist mér vera að sækja til baka þau verðmæti sem takmarkaður aðgangur að auðlindinni augljóslega er. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ríkisvaldið hefur búið til þessi verðmæti með því að takmarka aðganginn að henni, hefur úthlutað þeim verðmætum, og hv. þm. er að setja fram hugmyndir um það hvernig megi sækja þessi verðmæti til baka. Það er því alveg augljóst að hv. þm. er að reyna að vinna til baka hugsanlega þann skaða sem stjórnmálamenn fyrri áratuga hafa nú þegar unnið. Hv. þm. er að reyna að vinda ofan af því.

Í tillögum hv. þm. kemur fram að hann ætlar að gera þetta á 20 árum. Hv. þm. ætlar að reyna að sækja þessi réttindi til baka og skila þeim til þjóðarinnar á 20 árum, þ.e. afskrifa á hverju ári 5% af þeim heimildum sem nú er úthlutað og gera það þannig að á öðru ári verði það 10%, þriðja árið 15% og svo koll af kolli þar til allar þessar heimildir hafa verið sóttar til baka með þeim afskriftafræðum sem hv. þm. setur fram.

Hann rökstyður mál sitt með því að segja að þetta sé ekki hægt að gera í einu vetfangi vegna þess að í fyrsta lagi lendi ákveðinn stöðugleiki í samfélaginu og efnahagskerfinu í hættu ef farið verður í þetta verk í einu lagi og í öðru lagi er það einfaldlega þannig að okkar helstu lögspekingar hafa á það bent að þetta verði ekki gert í einu vetfangi nema til komi þá hugsanlega bætur til þeirra sem nú hafa öðlast þessi réttindi. Ég held að þessi aðferðafræði standist bæði umræðuna um stöðugleikann og eins þá almennu umræðu sem fram hefur farið um lagaleg áhrif þessa.

Hins vegar má segja sem svo að þegar menn eru að leita leiða í jafnstóru máli og þessu, þá sé alveg ljóst að þeir komist ekki fyrir allar víkur og í þessari umræðu er ekki mikið farið út í þau áhrif sem þetta kann að hafa á byggðarlögin, enda kannski gersamlega vonlaust að reyna að gera sér grein fyrir hvaða áhrif þetta kann að hafa.

Í fyrsta lagi er það markmið að reyna að vinna til baka til þjóðarinnar þau réttindi sem ríkisvaldið hefur afhent og í öðru lagi að úthluta þeim á nýjan leik og það er í grunninn sú hugsun sem hér býr að baki.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, og það er kannski meginástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umræðu, hvernig hv. þm. sér þessa þróun, þ.e. alla vega fyrstu árin, að 5--15% útboð á aflaheimildum muni í raun hafa nokkur áhrif á verðið, þ.e. að þetta sé svo lítið að það muni ekki hafa áhrif á verðmyndun frá því sem nú er. Og það er eitt sem ég held að við þurfum að hugleiða mjög alvarlega, þ.e. hvort sú prósentutala sem hv. þm. leggur hér af stað með sé í raun til þess fallin að lækka það verð sem nú er bæði á leigukvóta innan árs og eins á varanlegum aflaheimildum, því a.m.k. hvað varðar varanlegar aflaheimildir þá er þetta svo lítið að það er kannski bara rétt til þess að koma inn í þann jaðarkvóta sem nú er seldur á markaði á mjög háu verði. Það er kannski sú spurning sem ég vil fyrst og fremst beina til hv. þm.

Hins vegar vekur það vissulega eftirtekt að hv. þm. sem að öllu jöfnu hefur talað fyrir einstaklingsfrelsi og gert það af einurð og hugrekki og verið mjög heiðarlegur í þeim málflutningi sínum, er að mörgu leyti núna að leggja fram tillögu sem er kannski meiri sósíalismi, ef nota má það orð, en lagður hefur verið fram á þingi í háa herrans tíð, þ.e. að þau réttindi sem ríkisvaldið hefur úthlutað með þeim hætti sem það hefur gert til einstaklinga og félaga eru innkölluð til þess að afhenda þau allri þjóðinni og það er kannski meira í ætt við aðra hugmyndafræði en þá sem hv. þm. er hvað þekktastur fyrir og vekur eftirtekt þegar yfir þessa greinargerð er farið.

Hins vegar er það svo að þegar við ræðum þessi mál þá ræðum við þau náttúrlega út frá þeim forsendum sem við búum við í dag, út frá þeirri stöðu sem við búum við í dag, og það takmarkar kannski umræðuna að miklu leyti.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég vil þakka hv. þm. fyrir tillögurnar. Ég held satt best að segja að þetta jaðri við að vera fjarvistarsönnun Sjálfstfl. frá því að hann hafi áhuga á þessum málum að öðru leyti en því að viðhalda óbreyttu kerfi. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt hér í en augljóslega er lítill stuðningur úr hans flokki við hugmyndir af þessum toga, enda er hann einn á þeirri vegferð sem hann leggur upp í.

Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. hvernig hann sjái verðmyndun á aflaheimildum a.m.k. fyrstu árin, þ.e. hvenær sú lækkun sem a.m.k. er reynt að gera grein fyrir í þessari greinargerð komi hugsanlega til framkvæmda því að ég er smeykur um að þessi prósentutala sé í reynd allt of lág ef slá á á það verðlag sem nú ríkir í þessum markaði.