Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:55:14 (3964)

2000-02-03 13:55:14# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að hér er verið að breyta eignarhaldinu á kvótanum. En það er ekki verið að vinna aftur til baka þau auðæfi sem menn hafa fengið. Menn eru búnir að nýta hlunnindin því að útgerðin hefur breyst úr því að vera í bullandi halla yfir í það að vera í góðri afkomu og flest útgerðarfyrirtæki í dag skila góðum hagnaði. Það er ekki meiningin að taka þetta til baka, heldur á að taka hægt og rólega þennan ókeypis kvóta sem menn hafa fengið varanlega sem var þó í raun og veru aldrei úthlutað varanlega því að það hefur alltaf verið fyrirvari á því.

Það sem útgerðin fær í staðinn er að hún hefur þennan kvóta algerlega frjálsan og það svarar kannski spurningu hv. þm. um verðið. Verðið í dag á kvótanum er svona hátt vegna allra þeirra takmarkana sem búið er að setja á kvótann. Framsal, erfðir, veðsetning, eignarhald útlendinga o.s.frv., allt er þetta íþyngjandi fyrir útgerðina, mjög íþyngjandi, þannig að það er með ólíkindum að hún skuli skila hagnaði þrátt fyrir allar þessar kvaðir. En hún gerir það að sjálfsögðu vegna þess hve arðsemin af auðlindinni er mikil. Ég reikna því með að þessi kvóti útgerðarinnar muni fara mikið á markað, þessi kvóti sem hún heldur í 20 ár. Það verður algerlega frjálst og óbundið skipum. Síðan er reiknað með því að árlegar veiðiheimildir verði seldar fram í tímann þannig að fyrsta árið koma fimm plús tíu plús fimmtán prósent, þ.e. 30% á markað til næstu þriggja ára og síðan 20% árið þar á eftir þannig að það kemur umtalsvert til sölu strax við gildistöku laganna.