Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:57:04 (3965)

2000-02-03 13:57:04# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að þó að ég taki kannski ekki undir þessar hugmyndir þá hafi ég sagt að ég sé mjög hugsi og mjög jákvæður gagnvart ákveðnum grundvallarviðhorfum sem hér birtast. Ég sagði einnig að ég skildi þessar hugmyndir þannig að verið væri að kalla til baka þau verðmæti sem nú hefði verið úthlutað og dreifa þeim til þjóðarinnar.

Í sjálfu sér taldi ég ekki að hugarórar mínir einir byggju þar að baki heldur fyrst og fremst sú greinargerð sem hv. þm. hefur lagt fram. Þar segir m.a. í fyrsta lagi þar sem dregnar eru saman niðurstöður þeirra hugmynda sem hann ber fram: ,,Mikilvægt er að breyta eignarhaldinu þannig að sátt náist um það meðal þjóðarinnar.`` Í öðru lagi segir hv. þm., og það er niðurstaða hv. þm. hvað varðar 1. gr. laga um stjórn fiskveiða: ,,Með núverandi fyrirkomulagi eru nytjastofnarnir augljóslega ekki sameign þjóðarinnar.`` Niðurstaðan er síðan sú að auðlindin geti ekki verið í eigu einstaklinga eða fyrirtækja þeirra.

Virðulegi forseti. Þetta verður ekki lesið öðruvísi en svo að auðlindin sé núna í eigu einstaklinga og fyrirtækja þeirra og að hér sé verið að leggja til að þessu eignarhaldi verði breytt á þann hátt sem hér er lagt til, þ.e. að það verði kallað til baka frá einstaklingum og fyrirtækjum og því síðan dreift aftur út á meðal þjóðarinnar. Ég sé því ekki annað en að svo sé, virðulegi forseti, og bið þá um betri rök ef það er ekki réttur skilningur hjá mér að hér sé verið að kalla til baka þau réttindi sem úthlutað var eins og nú hefur verið gert og dreifa þeim og skipta þeim upp að nýju.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir röksemdum ef þetta er rangur skilningur.