Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:00:41 (3967)

2000-02-03 14:00:41# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er alla vega þessi misskilningur um eignarhaldið og arðsemina leiðréttur. Hv. þm. notaði orðið ,,eignarhald`` áðan en ég heyri það núna að hann hefur leiðrétt það og talar um arðsemi.

Varðandi byggðarlögin þá sagði ég ekki að ekkert væri fjallað um áhrifin á þau en hins vegar voðalega erfitt að spá hvaða afleiðingar þetta gæti haft í för með sér. Það er eins og með alla spádóma að þeir byggja aðeins á þeim forsendum sem við höfum í dag. Við getum ekki sagt til um hvernig fólk bregst við.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera að æsa hv. þm. upp á því að hann sé hér að leggja fram tillögur sem byggi á grunni einhvers konar sósíalisma. Hann hefur verið á ákveðnum flótta frá því í þessari umræður. Ég heyri að hann kann því ekki vel. Það breytir hins vegar ekki hinu, að grundvallarhugmyndafræði hans er sú að breyta eignarhaldinu frá því sem það er í raun í dag, kalla það inn með ákveðnum afskriftarreglum og dreifa því að nýju til þjóðarinnar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það getur ekki til lengdar orðið sátt um þau réttindi sem ríkisvaldið bjó til og dreifir síðan eins og gert er. Ég er því sammála þessum grundvallarviðhorfum þó ég hafi ákveðnar efasemdir um þá aðferðafræði sem hér er beitt.