Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:32:59 (3974)

2000-02-03 14:32:59# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í grg. með tillögunni kemur fram, ég tók það sérstaklega fyrir í fyrri ræðu minni, að þegar rætt er um kvótamál er brýnt að halda eftirfarandi þáttum vel aðskildum: Fiskveiðistjórnarkerfinu, þ.e. hvort notað er aflamark eða sóknarmark, framsali á kvóta, eignarhaldi á kvóta, árlegum og varanlegum kvóta og vísindalegri stjórnun fiskveiða.

Hv. þm. ræddi um aflamarkskerfið eða sóknarmarkskerfið. Það er engin afstaða tekin til þess í tillögunni, sama hvort kerfið yrði notað. Þó að það væri sóknarmark myndast líka kvóti. Togtímum eða dögum yrði úthlutað eða það einhvern veginn mælt hvað menn mættu veiða mikið og lengi, aðallega lengi og á þá úthlutun kæmi verð. Ef menn ætla ekki að hafa þann kvóta framseljanlegan mundi kerfið vera óhagkvæmt. Ef þeir hafa hann framseljanlegan myndast verð og þá þarf líka að taka afstöðu til eignarhalds á þeim kvóta. Hvað við seljum t.d. daginn á fyrir einn togara. Það sem hér er rætt um er eingöngu eignarhaldið vegna þess að það er mest í umræðunni og mest óánægja með það. En ég tek alveg undir með hv. þm. að ræða þarf hitt líka, kosti og galla sóknarmarkskerfis og aflamarkskerfis því bæði hafa kosti og galla. En það er ekki það sem við ræðum hér. Það þarf líka að ræða um vísindalega stjórnun sem hv. þm. kom inn á. Er verið að veiða rétt? Eru mælingarnar réttar? Eru vísindin yfirleitt rétt? En þetta er bara ekki sá þáttur þessa dæmis sem við ræðum hér. Við erum að ræða um eignarhaldið á þeim verðmætum sem myndast þegar aðgangur að auðlindinni er takmarkaður, hvort sem það er gert með aflamarki, sóknarmarki eða öðrum vísindalegum aðferðum.